Innstæður landsmanna í bönkum hafa rýrnað að raunvirði jafnt og þétt á seinustu árum. Í lok seinasta árs áttu einstaklingar 462,7 milljarða á innlánsreikningum og höfðu innstæður þeirra í bönkum minnkað um 44 milljarða frá árinu á undan.
Þetta kemur fram í grein Páls Kolbeins, hagfræðings hjá embætti ríkisskattstjóra, í Tíund, tímariti embættisins, um skattaálagningu ársins 2013. Innstæður minnkuðu um 8,7% á milli áranna 2011 og 2012 og hafa rýrnað um 39,7% frá því í árslok 2008.
Segir Páll enga einhlíta skýringu á því af hverju innstæður hafa rýrnað á undanförnum árum. Augljóslega hafi verðbólga étið upp innstæður að einhverju marki og gengið hafi á sparifé þeirra sem hafa þurft að mæta fjárhagslegum áföllum, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.