Neita að hækka iðgjald í LSR

Forystumenn BSRB saka stjórnvöld um aðgerðarleysi í málefnum LSR. Á …
Forystumenn BSRB saka stjórnvöld um aðgerðarleysi í málefnum LSR. Á myndinni eru Árni Stefán Jónsson, 1. varaformaður BSRB og formaður stjórnar LSR. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Fulltrúar opinberra starfsmanna í stjórn Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins lögðu fram tillögu í stjórn sjóðsins í síðasta mánuði að iðgjald ríkisins í sjóðinn yrði hækkað, en fulltrúar ríkisins höfnuðu tillögunni.

Stjórn BSRB hefur sent frá sér ályktun þar sem því er mótmælt að ekki sé gert ráð fyrir því á fjárlögum að ríkið greiði inn á skuldbindingar sínar við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. „Vandi sjóðsins hefur verið ljós í áraraðir og hann mun aðeins magnast á meðan ekkert er að gert. Þrátt fyrir það virðist áframhaldandi aðgerðaleysi vera helsta stefna stjórnvalda í málinu.“

Einnig kemur fram í ályktuninni að ítrekað hafi fulltrúar opinberra starfsmanna í stjórn LSR lagt það til að iðgjöld í A-deild sjóðsins verði hækkuð. Bæði Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlitið hafa margsinnis sagt að hækkun iðgjalda nauðsynlega svo sjóðurinn geti staðið undir framtíðarskuldbindingum sínum. Fulltrúar opinberra starfsmanna í stjórn LSR lögðu slíka hækkun síðast til á stjórnarfundi LSR í september. Líkt og áður var tillagan felld af fulltrúum fjármálaráðuneytisins í stjórn sjóðsins.

Myndi kosta 4,5 milljarða árlega að ná jöfnuði

Samkvæmt tryggingafræðilegu mati þarf að hækka heildariðgjald til A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) úr 15,5% í 20,1% til að tryggja að eignir hennar geti staðið undir bæði áunnum réttindum og reiknuðum framtíðarréttindum sjóðfélaga. Ríkisendurskoðun segir ef þetta væri gert myndu útgjöld ríkissjóðs hækka árlega 4,5 milljarða króna.

Tryggingafræðileg staða A-deildar LSR var neikvæð um 12,5% árið 2012 en til samanburðar var hún neikvæð um 13,1% árið 2011. Frá árinu 2000 hefur tryggingafræðileg staða A-deildar LSR ætíð verið neikvæð.

Í haust samþykkti Alþingi lög sem heimila lífeyrissjóðum að hafa meira en 10% mun milli eignaliða og lífeyrisskuldbindinga samfellt í allt að sex ár frá og með árinu 2008.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert