Átta ungmenni úr Rótaractklúbbnum Geysi í Kópavogi eru nýkomin úr kynnisferð í Rúmeníu, þar sem þau kynntust félögum í Rótaractklúbbnum Bucharesti í Búkarest, fræddust um menningu Rúmeníu og komu færandi hendi á munaðarleysingjaheimili og heimili fyrir fötluð börn og styrktu börn og unglinga, sem hafa alist upp við erfiðar aðstæður.
MR-ingurinn Andrea Ósk Sigurbjörnsdóttir, ritari klúbbsins og yngsti meðlimurinn, hefur þrisvar farið í sumarbúðir á vegum Rótarý-hreyfingarinnar – til Ítalíu, Ísraels og Istanbúl – og kynntist stúlku í Rótaractklúbbnum Bucharesti í ferðinni 2010. Með þeim tókst góður vinskapur og þegar ákveðið var að alþjóðaverkefni Geysis í ár yrði tengt Evrópulandi og miðaði að því að mynda tengsl við ungmenni í öðrum klúbbum og vinna verkefni í samvinnu við þau, lá beinast við að stefna á Rúmeníu. Ákvörðun þess efnis var svo tekin í byrjun árs.
Undirbúningur hófst í janúar og sá Áslaug Björk Ingólfsdóttir um samskiptin við Rúmenana, sem tóku svo á móti hópnum. „Við höfum sjaldan kynnst annarri eins gestrisni og vinsemd,“ segir hún.
Fulltrúi samtaka sem hjálpa róma-fólki að aðlagast samfélaginu, aðstoða það við að koma handverki sínu á framfæri og vinna á fordóm-um gegn því, fræddi hópinn um stöðu rómafólks í Rúmeníu og Daníel, 18 ára, sýndi þeim hvernig hann sker út ýmsa muni. „Hann kenndi okkur að tálga og sagði okkur frá sér og fjölskyldunni,“ segir Andrea Ósk. „Ég lærði mjög mikið á þessari ferð,“ heldur hún áfram. „Ég hafði ekki góða ímynd af landinu og rómafólkinu en eftir ferðina er hún allt öðruvísi og jákvæðari. Fjölmiðlar segja almennt ekki jákvæðar fréttir af rómafólki en þarna kynntumst við jákvæðu hlutunum, menningunni og hugsun krakkanna.“
Íslenski hópurinn færði krökkunum á munaðarleysingjahælinu tölvur, hreinlætisvörur, skóladót, fótbolta og fleira með stuðningi frá Rótarýklúbbnum Borgum, Pennanum, Mecca Spa og Ölgerðinni. Verkefnið var síðan styrkt af Evrópu unga fólksins. „Án þessa styrks hefði ferðin ekki orðið að veruleika,“ segir Áslaug Björk og er reynslunni ríkari. „Eins átakanlegt og það var að kynnast fátæku og fötluðu börnunum var ánægjulegt að sjá gleðina skína úr augum þeirra á lokakvöldinu.“