TF-SIF, flugvél Landhelgigæslunnar, hefur aðstoðað landamærastofnun ESB (Frontex við landamæraeftirlit á Miðjarðarhafi frá því í byrjun október. Áhöfn vélarinnar hefur komið auga á flóttamannabáta með rúmlega 100 manns innanborðs. Var þeim bjargað um borð í skip spænsku strandgæslunnar eða björgunarskip SASEMAR (Salvamento Marítimo).
Einnig hefur spænski flotinn komið til aðstoðar þegar herskip þeirra voru nálægustu björgunareiningarnar. Frá byrjun aðgerðarinnar í vor hefur u.þ.b. 3.100 flóttamönnum verið bjargað í leitar- og björgunaraðgerðum Frontex á sjó. Þetta kemur fram á vef Gæslunnar.
„Í eftirlitsflugi Sifjar hefur áhöfnin einnig komið auga á grunsamlega báta hafa verið tilkynntir til stjórnstöðvar vegna gruns um fíkniefnasmygl.
Flugvélin hentar afar vel við eftirlitið og með tímanum eykst enn frekar reynsla og þekking starfsmanna sem skilar sér í enn betri árangri. Fimm manna áhöfn fylgir flugvélinni auk flugvirkja og starfsmanns í stjórnstöð Frontex. Upplýsingar frá flugvélinni eru sendar til stjórnstöðvanna og allar ákvarðanir varðandi eftirlitið eru teknar í samráði við þær,“ segir í frétt á vef LHG.