„Ég tel að það sé mjög misráðið að skera niður í menningu vegna þess að hún er ein af grunnstoðum íslensks samfélags.“ Þetta segir rithöfundurinn Sjón, sem segir að listamenn séu ódýrir sendiherrar landsins.
„Í nokkur hundruð ár höfum við Íslendingar í krafti menningarlegrar auðlegðar gert tilkall til að sitja við sama borð og aðrar þjóðir í heiminum og til að svo verði þarf að styðja sæmilega við menningu. Það hefur lengi verið skilningur á nauðsyn þessa, samanber að rithöfunda- og listamannalaun eru 130 ára gamalt fyrirbæri á Íslandi. Þegar ég var að vinna að þessari nýju bók, sem gerist árið 1918, árið þegar Ísland varð fullvalda ríki, las ég mér til um aðdragandann að fullveldisstofnuninni og samningaviðræðurnar sem áttu sér stað milli Íslendinga og Dana. Það var greinilegt í máli íslensku samningamannanna að þeir litu á menningu og menntun sem eitt af mikilvægustu málunum í samningaviðræðunum og reyndu að tryggja að höfundarréttur íslenskra listamanna og réttur þeirra til að starfa í Danmörku væri virtur og yrði óskertur eftir fullveldið.
Þegar kemur að niðurskurði til lista hef ég áhyggjur af stöðu landsins frekar en stöðu einstakra listamanna eða einstakra listgreina. Fram að hruni nutum við góðvildar umheimsins en glötuðum henni síðan. Ein meginástæðan fyrir því að okkur hefur tekist að endurheimta þá góðvild eru hinir ódýru sendiherrar sem íslenskir listamenn eru. Fjöldi rithöfunda, tónlistarmanna, kvikmyndargerðarmanna, dansara og leiklistarfólks er á stöðugum ferðum um heiminn og flytur þau skilaboð að hér búi velviljað siðmenntað fólk sem er skapandi og gefandi. Íslenskt menningarstarf hefur sýnt umheiminum að vandræðin hér á landi voru tímabundin og ekki eigi að dæma alla þjóðina út frá hruninu heldur beri að meta hana af þeim gjöfum sem íslenskir listamenn færa heiminum. Bókamessan í Frankfurt sannaði til dæmis á glæsilegan hátt að við erum menningarþjóð. Í menningunni eru engir að gera það sama, þar er stöðugt verið að skapa eitthvað nýtt. Engin þjóð kemur sér upp menningu á stuttum tíma. Menning verður til á löngum tíma og ef hún glatast þá tekur önnur þúsund ár að skapa nýja menningu.“