Börn sem leggja aðra í einelti eru ekki vond, en þau þurfa hjálp við að uppræta neikvæða hegðun. Sé það ekki gert getur hegðun þeirra haldið áfram fram á fullorðinsár og haft neikvæð áhrif á líf þeirra.
Þetta segir Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor við menntavísindasvið Háskóla Íslands, sem undirbýr nú doktorsrannsókn á einelti frá sjónarhorni gerenda.
„Þessi andfélagslega hegðun sem þeir sýna sem leggja einelti, sem er náttúrulega oft hreint ofbeldi, sú hegðun getur haldið áfram. Þótt hún geri það auðvitað alls ekki hjá öllum, þá er fjöldi rannsókna sem sýnir fram á neikvæðar afleiðingar fyrir gerendur,“ segir Vanda.
Þannig virðast gerendur í eineltismálum t.d. vera líklegri til að feta braut áhættuhegðunar með áfengis- og vímuefnaneyslu sem og annars konar ofbeldishegðun eins og kynferðislegri áreitni eða ofbeldi gegn mökum og börnum á fullorðinsárum.
„Við viljum stoppa gerendurna, auðvitað fyrst og fremst þolendanna vegna, en líka fyrir gerendurna sjálfa áður en þetta leiðir til áframhaldandi vandamála,“ segir Vanda.
Takmarkaðar rannsóknir hafa hins vegar verið gerðar á gerendum eineltis og engar, svo Vanda viti til, þar sem rætt er við gerendurna sjálfa. „Mér finnst mjög mikilvægt að raddir þessara barna fái að heyrast,“ segir Vanda.
Doktorsrannsókn hennar verður tvíþætt. Megindlegi parturinn verður úrvinnsla úr spurningakönnun sem lögð verður fyrir nemendur í 6., 8. og 10. bekk grunnskóla í vetur, en var einnig lögð fyrir árin 2006 og 2010.
Könnunin er unnin af samtökunum HBSC og lögð fyrir börn í 40 löndum en er gerð hér á landi af hálfu Rannsóknarseturs forvarna við Háskólann á Akureyri.
Auk þess hyggst Vanda ræða við börn og foreldra barna sem hafa verið gerendur í einelti. Hún segist m.a. vilja skoða það hvernig upplifun foreldra er af því að fá að heyra að barnið þeirra leggi í einelti.
„Þetta er auðvitað erfitt símtal að fá. Hvernig hefðu foreldrar viljað fá þetta símtal? Var eitthvað sem stuðaði þá? Hvað var gert næst? Hvernig var samstarfið milli þeirra og hinna foreldranna og skólans? Þetta er lykilatriði í því hvernig á að leysa úr eineltismálum, en þessa þekkingu höfum við ekki í dag,“ segir Vanda.
Hún tekur fram að mikill árangur hafi náðst í eineltismálum á Íslandi. „Margir skólastjórnendur og kennarar eru virkilega að leggja sig fram og vinna mjög gott starf við að koma í veg fyrir einelti og taka á því. Það breytir því samt ekki að við þurfum að ná tíðninni niður“
Sjálf telur hún mikilvægt að byrja forvarnarstarf með börnum þegar í leikskóla.
„Rannsóknir sýna, og það segja líka leikskólakennarar sem ég hef talað við, að það má koma auga á gerendahegðun strax í leikskólum. Sum börn byrja að sýna af sér ofbeldishneigð strax í leikskóla og þess vegna vil ég byrja þar, en ekki bíða þar til þau verða 15 ára.“
Vanda hefur unnið mikið að eineltismálum í sínum störfum og má segja að það sé eins konar köllun hjá henni.
„Ég heyrði þetta orð, einelti, fyrst árið 1989 og tók þá ákvörðun um það í fyrsta lagi að leggja aldrei í einelti og í öðru lagi að berjast á móti því. Þetta er svo skelfilegt, og ég er alltaf að safna liði í eineltisbaráttunni. En einelti er mjög flókið mál og ekki til nein ein töfralausn, þess vegna held ég að aukin þekking geti bætt aðferðirnar og ég vona að þessi rannsókn verði hluti af því.“