Jákvæð reynsla af erlendu vinnuafli

Útlendingar streymdu hingað til land fyrir hrun vegna vinnu. Vísbendingar …
Útlendingar streymdu hingað til land fyrir hrun vegna vinnu. Vísbendingar eru um að erlendum ríkisborgurum sé nú farið að fjölga á ný. mbl.is/Steinunn Ásmundsdóttir

Meirihluti þeirra sem unnið hafa með útlendingum hefur jákvæða reynslu af því og telja gott fyrir íslenskt atvinnulíf að erlent fólk komi til starfa á Íslandi. Engu að síður er það svo að 44% fólks telja að í kreppu eigi Íslendingar frekar rétt á vinnu en útlendingar.

Þetta er meðal niðurstaðna spurningakönnunar sem Unnur Dís Skaptadóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, vann. „Niðurstöðurnar sýna ekki neikvætt viðhorf almennt til útlendinga, alls ekki og það er mikilvægt að við drögum ekki aðeins fram það neikvæða því það er margt jákvætt líka,“ segir Unnur.

Marktækur munur kemur hins vegar fram í viðhorfum milli ólíkra hópa samfélagsins eftir menntun, launum, kyni og búsetu.

Dregur hægar úr atvinnuleysi útlendinga

Eftir kreppu hafa erlendir ríkisborgarar og Íslendingar af erlendum uppruna átt erfiðara uppdráttar á vinnumarkaði en Íslendingar og hægar hefur dregið út atvinnuleysi þeirra á meðal.

Unnur hefur gert fjölda rannsókna á fjölmenningu og vinnutengdum fólksflutningum. Þetta er hins vegar fyrsta könnun sem hún gerir gagngert um viðhorf til innflytjenda á vinnumarkaði

Til að fá samanburð þurfti Unnur því að skoða rannsókn sem Rannsóknarmiðstöð viðskiptaháskólans á Bifröst vann árið 2008, þar sem m.a. var spurt  um sambærilegt efni. „Niðurstöðurnar eru svipaðar, ég sé ekki mikinn mun nema þá helst að það eru fleiri sem taka ekki afstöðu,“ segir Unnur.

Könnunin var lögð fyrir á netinu í s.k. spurningavagni félagsvísindastofnunar HÍ og var svarhlutfallið tiltölulega gott eða 70%.

Meiri kröfur um íslenskukunnáttu

Að sögn Unnar hafa rannsóknir sýnt að efnahagskreppur geta valdið minnkandi umburðarlyndi í samfélaginu. Þetta hefur m.a. komið í ljós bæði í Evrópu og Bandaríkjunum eftir efnahagshrunið 2008.

Á Íslandi má einnig finna breytt viðhorf í kreppunni. Í viðtölum Unnar við útlendinga hefur m.a. komið fram að margir þeirri upplifa meiri kröfur um að tala íslensku en áður. Íslenskukunnátta er nú víða orðin skilyrði fyrir því að fólk fái starf, jafnvel sambærileg störf og ekki þurfti að hafa íslenskukunnáttu í fyrir hrun.

Í könnun Unnar um viðhorf Íslendinga til útlendinga á vinnumarkaði var ein opin spurning þar sem fólk gat skrifað sjálft hvað það teldi mikilvægast og nefndu þá flestir íslenskukunnáttu. Sömuleiðis sögðust 44% mjög eða frekar sammála því að þegar samdráttur er á vinnumarkaði eigi Íslendingar frekar rétt á vinnu en útlendingar. 

Jákvæð reynsla í öllum hópum

Þrátt fyrir þetta sýna niðurstöður könnunarinnar að meirihluti svarenda er jákvæður fyrir því að erlent fólk komi til starfa á Íslandi og töldu það gott fyrir atvinnulífið.

„Stór hluti svarenda hefur einhvern tíma unnið með útlendingum og flestir hafa jákvæða reynslu af því.“ segir Unnur. „Það á sérstaklega við um stjórnendur, sérfræðinga og skrifstofufólk. En það eru mjög fáir sem segja að starfið með útlendingum hafi gengið illa eða mjög illa, eiginlega enginn.“

Marktækan mun mátti þó sjá á viðhorfum svarenda eftir launum og menntun. Þeir svarendur sem hafa minnsta menntun og eru í lægst launuðu störfunum eru neikvæðari gagnvart útlendingum á vinnumarkaði en þeir sem hafa meiri menntun og hærri laun. 

Viðhorfin eru einnig jákvæðari í þéttbýli en í dreifbýli. Þá kom einnig fram kynjamunur að sögn Unnar, en þó ekki eins mikill og í erlendum rannsóknum, þar sem konur eru yfirleitt mun jákvæðari en karlar gagnvart útlendingum á vinnumarkaði. Í könnun Unnar voru konur almennt aðeins jákvæðari, en munurinn var ekki mikill.

„Þetta er miklu flóknara en svo að allir séu annað hvort neikvæðir eða jákvæðir, það er frekar að það verði ákveðin pólaríseríng. Þarna eru vísbendingar um aukinn mun í viðhorfum innan ólíkra hópa samfélagsins og það vekur upp spurningar sem þarf að skoða nánar,“ segir Unnur.

Unnur Dís Skaptadóttir er prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands.
Unnur Dís Skaptadóttir er prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert