Kastaði bjórdósum í konu sína

Maðurinn er ákærður fyrir þrjár líkamsárásir.
Maðurinn er ákærður fyrir þrjár líkamsárásir. Rax / Ragnar Axelsson

Ungur karlmaður neyddi kærustu sína til að sofa í geymslu íbúðar þeirra og kastaði í hana tómum bjórdósum þar sem hún lá. Þá krafðist hann þess að hún klæddist síðerma bolum eða peysum þegar vinafólk kom í heimsókn, til að fela marbletti af völdum ofbeldis hans. Maðurinn kom fyrir dómara í dag.

Maðurinn er ákærður fyrir þrjár líkamsárásir á hendur konunni en einnig fyrir vopnað rán og tilraun til að brjótast inn í skartgripaverslun. Umfjöllun seinni ákæruliðina birtist á mbl.is fyrr í dag.

Árásirnar þrjár voru gerðar á árunum 2011 og 2012 í Hafnarfirði og Reykjavík. Í einum ákæruliðnum er manninum gefið að sök að hafa ráðist á konuna, tekið hana hálstaki, dregið hana um á hárinu og veist að henni með höggum og spörkum. Í öðrum ákæruliðnum er honum gefið að sök að hafa slegið hana hnefahöggi í andlitið og einnig í þriðja ákærulið auk þess að hafa tekið hana kverkataki og bitið hana í brjóstkassann.

Konan kom fyrir dóminn í dag og lýsti líkamsárásunum. Reyndist henni það svo þungbært að gera þurfti hlé á réttarhaldinu svo hún gæti jafnað sig. Hún minntist meðal annars á að hann hefði unnið mikið fyrir vélhjólasamtök. Hún sagði sambandið hafa staðið í átta mánuði en þau hefðu einnig hist áfram í tvö og hálft ár eftir að því lauk.

Þá kom fram í máli konunnar að maðurinn hefði farið fram á að hún væri í síðerma bolum eða peysum þegar vinafólk kæmi í heimsókn. Þá sýndi saksóknari myndir af geymslunni þar sem hún var látin sofa. „Já, hann lét mig stundum vera þarna, oft á meðan hann róaði sig niður,“ sagði konan og staðfesti að maðurinn hefði kastað í hana tómum bjórdósum þegar hún lá í geymslunni.

Maðurinn játaði sök að hluta, en kannaðist ekki við atvikalýsingu í öllum ákæruliðunum. „Ég hef aldrei kýlt þessa stelpu með berum hnefa,“ sagði hann og bar síðar á móti því að hafa sparkað í hana þar sem hún lá í jörðinni. „Ég myndi ekki gera henni meira mein ef hún væri komin í jörðina.“

Eina árásina kannaðist hann alls ekki við en staðfesti þó að þau hefðu rifist umrætt skipti. „Við vorum eitthvað að öskra hvort á annað. Ég æddi út og næsta sem ég veit er að löggan er komin. Ég talaði við hana [lögregluna] og var mjög vinalegur.“

Þá reyndi hann að réttlæta eina árásina með því að um átök hafi verið að ræða. „Ég sló hana kannski en hún var líka að ráðast á mig. Eini munurinn er sá að ég fór ekki upp á spítala.“ Hann mundi ekki til þess að hafa bitið hana umrætt skipti en þrætti ekki fyrir það þegar framburður læknis var borinn undir hann. „Þá hef ég eflaust gert það,“ sagði hann.

Bæði maðurinn og konan eru fædd árið 1993 og eru tvítug.

Mældist á 197 km hraða

Maðurinn er einnig ákærður fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot. Hann neitaði sök hvað nytjastuldinn varðaði og efaðist um mælingu lögreglunnar hvað umferðarlagabrotið áhrærði. „Þetta er síðasta brot sem ég hef framið. Og ég var í mikilli neyslu og undir miklum áhrifum og satt best að segja man ég ekki eftir þessu,“ sagði maðurinn en umrætt brot var framið í mars síðastliðnum.

Manninum er gefið að sök að hafa tekið bifreið í heimildarleysi og ekið henni undir áhrifum vímuefna og langt yfir hámarkshraða á Reykjanesbraut. Samkvæmt ákæru mældi lögregla bifreiðina á 197 km hraða til móts við IKEA í Garðabæ. 

Lögreglumaður sem kom fyrir dóminn sagði að illa hefði gengið að halda í við manninn. „Við vorum komnir á lokahraða lögreglubifreiðarinnar en vorum samt að dragast aftur úr,“ sagði hann. Fram kom að mælingin byggðist á hraða lögreglubifreiðarinnar og á GPS-tæki í bifreiðinni. 

Hann sagðist hafa verið heimilislaus á þessum tíma og verið hjá vini sínum í Hafnarfirði. Sá hefði lánað honum bílinn gegn 20 þúsund króna gjaldi. „Ég borgaði honum 15 þúsund krónur og svo var ég að greiða honum fimm þúsund um daginn,“ sagði maðurinn.

Frétt mbl.is: Reyndu rán með rörasprengju

Merki Vítisengla.
Merki Vítisengla. Af vef Europol
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert