Kólnandi veður og hætta á hálku

mbl.is/Gúna

Norðan-strengur nær yfir austasta hluta landsins og reikna má með vindhviðum, allt að 30 m/s suðaustanlands, einkum frá Hornafirði austur í Berufjörð fram á kvöldið. Veður er kólnandi og það frystir á blautum vegum á láglendi með tilheyrandi hálku. Á það sérstaklega við um norðvestan- og norðanvert landið, segir í ábendingum veðurfræðings Vegagerðarinnar.

Vegir eru að mestu auðir á Suður- og Suðausturlandi en í öðrum landshlutum er víða vetrarfærð, einkum á fjallvegum.

 Það er snjóþekja á Holtavörðuheiði, Svínadal og Laxárdalsheiði, hálka á Bröttubrekku og Fróðárheiði en hálkublettir á Vatnaleið.

 Á Vestfjörðum er víða nokkur éljagangur eða skafrenningur og snjóþekja, hálka eða hálkublettir. Vegir eru þó að mestu auðir í Djúpinu og á Innstrandavegi. Ófært er frá Bjarnarfirði norður í Árneshrepp.

 Hálka er á Vatnsskarði og Öxnadalsheiði, snjóþekja á Þverárfjalli og hálkublettir á Siglufjarðarvegi. Austan Eyjafjarðar er víða snjóþekja eða nokkur hálka, einkum inn til landsins en autt er með ströndinni. Dettifossvegur er ófær.

 Á Austurlandi er snjóþekja, hálka eða hálkublettir á fjallvegum og sums staðar skafrenningur. Óveður er á Öxi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert