Mótmælendur mættir í hraunið

Frá vettvangi við Gálgahraun í síðustu viku.
Frá vettvangi við Gálgahraun í síðustu viku. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Hraunavinir og aðrir andstæðingar nýs Álftanesvegar mættu snemma í morgun í Gálgahraun/Garðahraun til þess að mótmæla framkvæmdum við hann og minnast þess að vika sé liðin frá því að framkvæmdir hófust aftur við veginn. Ætlunin er að funda með Gunnari Einarssyni, bæjarstjóra Garðabæjar, í hádeginu til þess að leggja áherslu á sjónarmið þeirra sem leggjast gegn framkvæmdunum.

Lögreglan hefur ekki mætt á staðinn að sögn Ragnhildar Jónsdóttur, félaga í Hraunavinum, en hún segir að lögreglumenn séu vafalaust engu að síður að fylgjast með úr fjarlægð eins og raunin var í síðustu viku. „Við mættum hér og tjölduðum og erum með kaffi. Síðan kemur fólk hérna og stoppar við. Þannig að fólk er að koma og fara, bæði úr náttúruverndarsamtökum og einstaklingar. Þannig að það er svona breytileg tala sem er hérna en það eru alltaf einhverjir og við getum alltaf kallað út fleiri með stuttum fyrirvara.“ Aðspurð segir hún að mótmælendur haldi sig fyrir utan vinnusvæðið.

Ragnhildur segir að litlar framkvæmdir séu í gangi hjá verktakanum sem vinnur að lagningu vegarins. Hún segir að verkstjóri framkvæmdanna hafi sagt þeim að sandur eða eitthvað slíkt hafi verið settur í eldsneytistanka vinnuvélanna. Það hafi hins vegar ekki verið gert af hálfu Hraunavina. „Þetta er ekki frá okkur komið. Við erum bara friðsamt fólk. Síðan eru líka einstaklingar sem eru að mótmæla þessu og það er vitanlega ekki hægt að ábyrgjast alla.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert