Voru íslenskir stjórnmálamenn hleraðir?

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson. mbl.is/Árni Sæberg

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, ætlar að ganga á eftir því að bandarísk yfirvöld svari því hvort íslenskir stjórnmálamenn hafi verið hleraðir á undanförnum árum og ef svo er, hverjir og af hvaða tilefni. Þetta skrifar Ögmundur á bloggsíðu sinni.

Ögmundur rifjar upp að upplýsingarnar um að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hafi verið hleruð, komi frá lýðræðisuppljóstraranum Edward Snowden. Sömuleiðis upplýsingar um njósnir Bandaríkjamanna á öðrum þjóðarleiðtogum og tugþúsundum, ef ekki hundruð þúsunda annarra. „Enn á þessi mynd eftir að skýrast nánar,“ skrifar Ögmundur. 

„Enginn véfengir að þessar njósnir hafi átt sér stað. Ekki heldur Bandaríkjastjórn. Í Evrópu er nú unnið að því að koma á fót sérstökum starfshópi sérfræðinga til að fjalla um upplýsingar Edwards Snowden um njósnir bandarískra yfirvalda. Reiði manna fer vaxandi. Í Bandaríkjunum er einnig rísandi alda mótmæla. Miðað við aðstæður hljóta mótmæli þjóðarleiðtoga þó enn sem komið er að teljast linkuleg,“ skrifar Ögmundur.

Ögmundur segir að upplýst hafi verið í fréttum að  utanríkisráðuneytið íslenska hafi ítrekað lýst andstöðu og áhyggjum af tilefni þessara frétta. 

„En hefur þess verið krafist að bandarísk yfirvöld svari því formlega hvort íslenskir stjórnmálamenn hafi verið hleraðir á undanförnum árum og ef svo hafi  verið,  þá hverjir og af hvaða tilefni?

Þetta þarf að upplýsa og mun ég ganga eftir því að þessar spurningar verði bornar upp við bandarísk stjórnvöld og síðan að svörin verði birt opinberlega,“ skrifar Ögmundur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert