„Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að hafa fríverslunarsamning við Kína. Kínverjar eru áhugasamir um Ísland og Norðurslóðir og Íslendingar þurfa eðlilega að hagnýta sér þann áhuga rétt eins og þeir hagnýta sér áhuga annarra þjóða. Vonandi mun samband Íslands og Kína styrkjast en það verður að vera á okkar forsendum.“
Þetta er haft eftir Gunnari Braga Sveinssyni, utanríkisráðherra, á fréttavefnum Bloomberg í dag en hann er nú staddur á fundi Barents Artic-Euro Council í Tromsø í Noregi. Þá sagði hann að ríkisstjórnin ætlaði að endurskoða ákvörðun fyrri stjórnar um að hindra landakaup kínverska fjárfestisins Huang Nubo hér á landi. Áhersla íslenskra stjórnvalda í utanríkismálum væri á Norðurslóðir og fleiri sjálfstæða viðskiptasamninga við önnur ríki. Einnig er komið inn á Evrópumálin og segist Gunnar vona að Ísland gangi aldrei í Evrópusambandið.
„Ég vona að að Ísland gangi aldrei í Evrópusambandið. Það er ómögulegt að segja hvað kann að gerast eftir 10 eða 20 ár en ég tel að sambandið sé að þróast í áttir sem geri það minna eftirsóknarvert fyrir Ísland að ganga þar inn. Þar er vaxandi miðstýring og valdheimildir fluttar frá ríkjunum til ókjörinna embættismanna.“