Nokkrum albönskum fjölskyldum hefur verið vísað úr landi og verða fluttar af landi brott í kvöld. Farþegaflugvél á vegum landamærastofnunar Evrópusambandsins (Frontex) kemur til landsins og sækir fólkið sem allt hefur sótt um hæli hér á landi. Þetta kemur fram í frétt Fréttablaðsins í dag.
Flugvélin hefur viðkomu í fleiri löndum í sama tilgangi, og flytur alls um 160 albanska hælisleitendur til Albaníu. Viðkomustaðirnir eru meðal annars í Svíþjóð, þangað sem vélin flýgur í nótt, og í Róm á Ítalíu, að því er Fréttablaðið kemst næst.
Um sautján Albana er að ræða, þar af sex börn. Eitt þeirra er fimm mánaða gamalt og fæddist hér á landi. Ein konan í hópnum er komin sex mánuði á leið og orðin veik vegna álags, herma heimildir Fréttablaðsins. Jafnframt er gagnrýnt að aðeins líða um tveir sólarhringar frá því að fólkinu var tilkynnt um að komið væri að brottför og þangað til það verður flutt um borð í flugvélina.
Einu upplýsingarnar sem fengust frá embætti ríkislögreglustjóra voru að innanríkisráðuneytið hefði falið embættinu að annast heimferð sautján albanskra ríkisborgara sem Útlendingastofnun hefur synjað um hæli og vísað úr landi.