„Þetta var svona Kjalarnesveður“

Tré rifnuðu víða upp frá rótum þar sem fárviðrið gekk …
Tré rifnuðu víða upp frá rótum þar sem fárviðrið gekk yfir norðvesturhluta Evrópu í nótt. AFP

Fárviðrið sem gekk yfir Danmörku í gær var það kröftugasta þar í landi síðan mælingar hófust. Íslendingar búsettir í Danmörku segja þó að það hafi minnt æði mikið á dæmigerða íslenska haustlægð, en töluverð hætta hafi stafað af fjúkandi lausamunum.

Almenningssamgöngur hættu að ganga í Kaupmannahöfn og tré rifnuðu upp með rótum. Einn maður lést í bænum Holbæk á Sjálandi, eftir að hafa ekið á tré sem féll á veginn. Þá er 32 ára gömul kona í lífshættu eftir að hafa fengið fjúkandi þakskífu í höfuðið þar sem hún stóð út á svölum heima hjá sér.

Gekk heim og sneiddi hjá föllnum trjám

„Ég var ekki alveg að fylgjast með veðurfréttunum í gær og sat föst niðri í bæ,“ segir Guðrún Unnur Gústafsdóttir sem er við nám í Kaupmannahöfn og býr í Frederiksberg. 

„Þegar ég kom út sá ég að allt hafði splundrast og öll hjól lágu á hliðinni. Ég ætlaði þá að taka strætó heim og beið í hálftíma þar til mér var sagt að allt væri stopp. Lestarnar voru hættar að ganga svo ég byrjaði að leita að leigubílum en hitti strák á stoppistöð með fullt af töskum, sem sagðist hafa beðið eftir leigubíl í 3 klukkutíma. Svo ég labbaði bara heim, einhverja 4 kílómetra.“ 

Guðrún segist að vísu stundum hafa þurft að leggja lykkju á leið sína þar sem tré lágu á veginum og á Vesterbrogade gekk hún fram á gapandi op á Radison SAS hótelinu, þar sem stór glerrúða hafði sprungið í vindhviðu. Sama hafði gerst á bókasafni þar sem greið leið var inn um brotnar rúður. Hún er þó þeirrar skoðunar að meira öryggi hefði verið falið í því að láta strætisvagna ganga svo fólk væri ekki strandaglópar.

„Það komu mjög sterkar hviður inn á milli en mér fannst þetta ekkert eins og maður hefur séð á Íslandi. Þetta var svona Kjalarnesveður.“

Rafmagns- og símasambandslaust um tíma

Hildur Sigurðardóttir býr í Kolding á Suður-Jótlandi. Hún tekur undir með Guðrúnu og segir fjölskylduna hafa upplifað storminn sem venjulegt íslenskt hvassveður. Mikið hafi verið af fjúkandi drasli, m.a. trjágreinum og þakflísum.

„En hér voru þök að fjúka og tré sem rifnuðu upp frá rótum. Ég sótti strákana mína í skólann og það var rafmagnslaust og gsm símasambandslaust í smá tíma. Verslanir lokuðu vegna rafmagnsleysis, en það var ekkert að veðrinu miðað við það sem við erum vön á Íslandi.“

Heimþráin gerði vart við sig

„Ég var á ferðinni þegar þetta var verst, um sexleytið í gær, og þar var stórhættulegt því það höfðu svo mörg tré fallið á veginn og skyggnið var lítið sem ekkert, þrumur og rigning og léleg götulýsing,“ segir Þórður Einarsson sem býr í Helsingjaborg á Skáni, í Suður-Svíþjóð þar sem veðrið var einnig afar slæmt.

Þórður segir að verstu hviðurnar hafi farið yfir 30 metra á sekúndu sem sé mikið á þeim slóðum. Trjágróðurinn hafi enn ekki fellt laufin og því tekið í sig mikinn vind og rifnað upp. Þá hafi trampolín einnig fokið, eins og Íslendingar þekkja vel af eigin raun.

„Það hefur enginn þurft að hugsa út í það hér áður, að bjarga trampólínunum,“ segir Þórður og hlær. „Þetta var svona Kjalarnesfílingur. Það lá við að maður fengi heimþrá.“

Eyrarsundsbrúnni milli Danmerkur og Svíþjóðar var lokað vegna óveðursins og allar lestarsamgöngur lágu niðri beggja megin auk þess sem víða var rafmagnslaust. Þórður segir að veðrið sé nú að mestu gengið niður en áhrifa þess muni gæta fram í daginn, m.a. vegna þess að fara þurfi meðfram öllum lestarteinum til að hreinsa burt trjágróður áður en lestarsamgöngur komist á fullan snúning.

Guðrún Unnur Gústafsdóttir var strandaglópur í miðborg Kaupmannahafnar í fárviðrinu …
Guðrún Unnur Gústafsdóttir var strandaglópur í miðborg Kaupmannahafnar í fárviðrinu - en ákvað að ganga bara heim til sín. Ljósmynd/Úr einkasafni
Þórður Einarsson býr í Helsingjaborg á Skáni og segist hafa …
Þórður Einarsson býr í Helsingjaborg á Skáni og segist hafa fengið netta heimþrá í storminum sem þar gekk yfir. Ljósmyd/Úr einkasafni
Trampólín tókust á loft bæði í Svíþjóð og Danmörku í …
Trampólín tókust á loft bæði í Svíþjóð og Danmörku í gær. Ljósmynd/Hildur Sigurðardóttir
Rúða splundraðist undan vindhviðu í Radison SAS hótelinu við Vesterbrogade …
Rúða splundraðist undan vindhviðu í Radison SAS hótelinu við Vesterbrogade í miðborg Kaupmannahafnar. Ljósmynd/Guðrún Unnur Gústafsdóttir
Tré rifnuðu víða upp með rótum og ollu tjóni. Þetta …
Tré rifnuðu víða upp með rótum og ollu tjóni. Þetta tré féll við grunnskóla í Kolding. Ljósmynd/Hildur Sigurðardóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert