Ófært til Eyja

Flugfélagið Ernir flýgur til Vestmannaeyja og fleiri staða.
Flugfélagið Ernir flýgur til Vestmannaeyja og fleiri staða.

Ekki er hægt að fljúga til Vestmannaeyja vegna veðurs, samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu Erni. Flug til Ísafjarðar er í athugun, samkvæmt upplýsingum frá Flugfélagi Íslands.

Annað flug er á áætlun hjá Flugfélagi Íslands. Fyrstu ferð Herjólfs frá Vestmannaeyjum hefur verið aflýst vegna veðurs en í Vestmannaeyjum hefur vindurinn farið yfir 30 metra á sekúndu í verstu hviðum í morgun.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Vestmannaeyjum er hvasst og slydda í Eyjum en skólahald er þar með eðlilegum hætti sem og allt annað athafnalíf í Eyjum fyrir utan samgöngur til og frá landi.

Hvassast er undir Eyjafjöllum en samkvæmt sjálfvirkri veðurathugunarstöð Vegagerðarinnar við bæinn Hvamm hefur vindur farið í 44 metra á sekúndu í hviðum. Undir Reynisfjalli er einnig mjög hvasst eða tæpir 40 metrar á sekúndu í hviðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert