Ekki er hægt að fljúga til Vestmannaeyja vegna veðurs, samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu Erni. Flug til Ísafjarðar er í athugun, samkvæmt upplýsingum frá Flugfélagi Íslands.
Annað flug er á áætlun hjá Flugfélagi Íslands. Fyrstu ferð Herjólfs frá Vestmannaeyjum hefur verið aflýst vegna veðurs en í Vestmannaeyjum hefur vindurinn farið yfir 30 metra á sekúndu í verstu hviðum í morgun.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Vestmannaeyjum er hvasst og slydda í Eyjum en skólahald er þar með eðlilegum hætti sem og allt annað athafnalíf í Eyjum fyrir utan samgöngur til og frá landi.
Hvassast er undir Eyjafjöllum en samkvæmt sjálfvirkri veðurathugunarstöð Vegagerðarinnar við bæinn Hvamm hefur vindur farið í 44 metra á sekúndu í hviðum. Undir Reynisfjalli er einnig mjög hvasst eða tæpir 40 metrar á sekúndu í hviðum.