Tíu þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa lagt fram á Alþingi frumvarp til breytinga lögum um þingsköpum þess efnis að ráðherrar geti kallað til varaþingmenn í sinn stað og setið aðeins á þingi í krafti embættis sinna sem ráðherrar. Varamenn þeirra taki þá sæti á þingi í þeirra stað. Er þetta í fimmta sinn sem frumvarpið er lagt fram.
„Þingmaður getur, meðan hann gegnir ráðherraembætti, ákveðið að sitja á Alþingi einungis samkvæmt embættisstöðu sinni sem ráðherra, sbr. 51. gr. stjórnarskrárinnar, og tekur varamaður hans þá sæti á Alþingi. Tilkynnir ráðherra forseta ákvörðun sína með bréfi sem forseti kynnir þinginu. Varaþingmaður, sem tekur sæti á Alþingi samkvæmt þessari málsgrein, nýtur allra sömu réttinda meðan hann situr á Alþingi eins og þeir alþingismenn sem eiga þar fast sæti. Varaþingmaðurinn hverfur af þingi þegar kjörtímabilið rennur út eða áður við þingrof eða þegar ráðherranum hefur verið veitt lausn frá embætti,“ segir í texta frumvarpsins.
Flutningsmenn eru Valgerður Bjarnadóttir, Helgi Hjörvar og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þingmenn Samfylkingarinnar, Árni Þór Sigurðsson þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Björt Ólafsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Róbert Marshall og Óttarr Proppé þingmenn Bjartrar framtíðar og Jón Þór Ólafsson og Birgitta Jónsdóttir þingmenn Pírata.