Aðflug að Akureyrarflugvelli mistókst

Akureyrarflugvöllur.
Akureyrarflugvöllur. Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson

Mikil töf varð á ferð ferðaskrifstofunnar Trans-Atlantic frá Íslandi til Lettlands á laugardag þegar flugmanni flugvélar í eigu leiguflugfélagsins Smartlynx mistókst aðflug að Akureyrarflugvelli. Isavia sendi í kjölfarið tilkynningu um málið til rannsóknarnefndar samgönguslysa sem mun rannsaka atvikið.

Ferðaáætlunin var þannig að farið var frá Keflavík klukkan 8.05 laugardaginn 26. október og stóð til að lenda á Akureyri klukkan 9 og fara aftur í loftið klukkustund síðar áleiðis til Riga í Lettlandi. Vélin lenti hins vegar ekki á Akureyri heldur hélt áleiðis til Keflavíkur að nýju eftir misheppnað aðflug.

Hjá Trans-Atlantic fengust þær upplýsingar að flugmaðurinn hefði hætt við lendingu vegna veðuraðstæðna. Mjög lágskýjað hafi verið og hann hafi ekki þorað að taka neina áhættu. Engin hætta hafi þó verið á ferðum. Hann hafi svo snúið aftur þegar hann treysti sér til þess. Um tuttugu farþegar voru um borð.

Vélin lenti heilu og höldnu á Akureyrarflugvelli síðar sama dag en þá var flugáhöfnin fallin á tíma og þurfti reglubundna hvíld. Fór því svo að flugvélin fór ekki í loftið frá Akureyri fyrr en klukkan 3.25 aðfaranótt sunnudagsins 27. október.

Isavia veitir engar upplýsingar um atvikið enda rannsóknarnefnd samgönguslysa með það til umfjöllunar. Þó fékkst það staðfest að aðflugið hefði misheppnast. Og hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa fengust ekki aðrar upplýsingar en þær að nefndin hefði tekið atvikið til skoðunar og næst væri að viða að sér gögnum um það.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert