„Ég hef samt sem áður enga formlega beiðni fengið frá Snowden um ríkisborgararétt hérlendis, þangað til að ég fæ slíkt með hans undirskrift getum við ekki lagt fram frumvarp þar að lútandi.“
Þetta segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, á Facebook-síðu sinni í dag og vísar þar til viðtals við Kristinn Hrafnsson, talsmann Wikileaks, í útvarpsþættinum Harmageddon í morgun þar sem hann hafi sagt að bandaríski uppljóstrarinn Edward Snowden vildi enn koma til Íslands og fá íslenskt vegabréf en hann er nú staddur í Rússlandi þar sem hann hefur tímabundið dvalarleyfi. Áður en honum var veitt það var hann fastur dögum saman á alþjóðaflugvelli í Moskvu þar sem bandarísk stjórnvöld höfðu ógilt vegabréf hans.
Ætti að vera í lófa lagið að senda bréf
„Við Píratar viljum hjálpa Snowden og erum honum afar þakklát fyrir það hugrekki sem hann hefur auðsýnt til að upplýsa almenning um heim allan um stórfelldar persónunjósnir sem viðgangast um allan heim,“ segir Birgitta ennfremur. „Ég var í beinu sambandi við Snowden fyrir nokkru síðan og útskýrði nákvæmlega hvað það er sem þarf að gera til að slíkt gæti talist gilt hér á Alþingi. Það var þegar hann var enn fastur á flugvellinum.“
Hún segist hafa fullan skilning á því að erfitt hafi verið fyrir Snowden að senda slíkt bréf þegar hann var fastur á flugvellinum í Moskvu. „En nú er staðan þannig að það væri honum í lófa lagið að senda bréfið með ábyrgðarpósti eða með sameiginlegum kunningjum ef þetta væri honum mikilvæg útgönguleið. Þannig að þangað til að bréfið berst til okkar, getum við einfaldlega ekki neitt gert.“