„Enda á ég Kerið og borga ekki krónu“

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson. mbl.is/Árni Sæberg

Skráðir „eigendur“ náttúruperla vilja ekki almenna skattlagningu á ferðamenn. Þá fá þeir ekki með beinum hætti hlutdeild í skattheimtunni, skrifar Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra í pistli á bloggsíðu sinni en þar fjallar hann um gjaldtöku á ferðamannastöðum. Fyrirsögn pistilsins er „Við eigum öll Geysi og líka Kerið“.

„Náttúrupassar væru að þeirra mati skárri en þó ekki eftirsóknarverðir, út frá hagsmunum eigin pyngju. Farvegurinn niður í hana er einfaldari þegar rukkað er beint við hliðið.“

Ögmundur segir að nú óttist „eigendur“ að passarnir kunni að koma. „Þess vegna segjast „eigendur“ Geysis-svæðisins ætla að drífa í því að rukka. Þeir hafna almennri skattheimtu og náttúrupössum og eru ófeimnir við að skýra samhengið.“

Ögmundur segir að „Eigendur“ Geysis-svæðisins segi að ríkisstjórnin sé „hlutlaus" gagnvart rukkun við hlið. „Það þýddi að ríkisstjórnin gætti ekki almannahagsmuna. Með hlutleysi sínu myndi ríkisstjórnin leyfa hinum nýju skattheimtumönnum Íslands að fara sínu fram.“

Viðbrögð Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, ferðamálaráðherra, hafi hins vegar ekki verið á þann veg sem „eigendur“ Geysissvæðisins höfðu viljað vera láta. Hún virtist ekki spennt „fyrir rukkun við hlið. Það þótti mér gott að sjá og eru viðbrögð hennar þakkarverð. Hún á hins vegar eftir að svara því hvort hún vill setja upp hlið til að sýna náttúrupassa. Það væri afturför og skref inn í rukkunarkerfi.“

Ögmundur rifjar upp að eigendur Kersins hafi í sumar rutt brautina fyrir rukkun við hlið. 

„Nú þarf að spyrja hver raunverulega eigi náttúru Íslands án gæsalappa,“ skrifar Ögmundur. „Að sjálfsögðu er það þjóðin. Mér sýnist þurfa að tryggja þetta gæsalappalausa eignarhald  á náttúruperlum í lögum og að sjálfsögðu í stjórnarskrá.“

Ögmundur bendir á að síðan sé það annað mál að setja þurfi fjármuni í ferðmannastaði. Ríkisstjórnin hafi ákveðið að falla frá fyrirhugaðri skattlagningu á ferðamenn. Hún hefði þó verið léttvæg fyrir ferðamennina en skipt sköpum fyrir vernd náttúrunnar, að mati Ögmundar.

„Annars er langt síðan ég hef skoðað Kerið. Best að drífa sig í það. Ekki mun ég þó borga. Enda á ég Kerið og borga ekki krónu til „eigenda" í gæsalöppum.

Skatta greiði ég hins vegar með ánægju og vil gjarnan að þeir renni í ríflegum mæli til náttúruverndar,“ skrifar Ögmundur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert