Um næstu áramót taka gildi lög um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi. Byggjast lögin á tilskipun frá ESB.
Fela þau m.a. í sér að lögð er sú skylda á seljendur eldsneytis hér á landi að minnst 3,5% orkusölunnar verði af endurnýjanlegum uppruna frá og með árinu 2014. Hlutfallið fari í 5% árið 2015 og 10% árið 2020. Samhliða verði hlutfall endurnýjanlegrar orku í heild 20% í landinu.
Glúmur Jón Björnsson, framkvæmdastjóri efnarannsóknastofunnar Fjölvers, segir að lögin muni hafa áhrif á eldsneytisverð. Neytendur þurfi að kaupa dýrara eldsneyti en rýrara að gæðum með innfluttum íblöndunarefnum. Hann bendir á að hlutfall endurnýjanlegrar orku sé um 75% á Íslandi og því langt umfram þau 20% sem tilskipun ESB kveður á um.