Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, lagði í dag Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu lið með því að selja Neyðarkallinn fyrir framan verslun Hagkaupa í Smáralindinni í dag.
Neyðarkallinn er til sölu um allt land nú um helgina, en þetta er í áttunda sinn sem þessi fjáröflun fer fram. Hún er ein mikilvægasta fjáröflun björgunarsveitanna.
Í ár er Neyðarkallinn í gervi björgunarsveitakonu með fyrstu-hjálpar búnað; sjúkratösku og upprúllað teppi. Fyrsta hjálp er eitt af grunnnámskeiðum sem björgunarsveitafólk tekur og er það með öðru sniði en þau skyndihjálparnámskeið sem almenningur þekkir þar sem miðað er við að hlúa geti þurft að sjúklingi í yfir tvo tíma áður en sérhæfðari aðstoð berst.
Sjálfboðaliðar björgunarsveita munu selja neyðarkallinn á flestum þeim stöðum sem almenningur kemur saman á, svo sem í stórmörkuðum, verslanamiðstöðvum, vínbúðum, bensínstöðvum og víðar. Víða á landsbyggðinni verður einnig gengið í hús. Sölunni lýkur á laugardagskvöld.
Neyðarkall björgunarsveita er á sama verði og síðustu tvö ár en hann kostar 1500 kr.