„Viðskipti gerð í anda græðgi“

Runólfur Ágústsson
Runólfur Ágústsson mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Runólfur Ágústsson, fyrrverandi rektor við háskólann á Bifröst, var í dag dæmdur til að greiða slitastjórn SPB hf. 80 milljónir að viðbættum vöxtum vegna fjárfestinga sem hann réðist í á árinu 2008. Runólfur skrifar um dóminn í dag og segir þessi viðskipti hafa verið gerð anda græðgi og auðsöfnunar áranna fyrir hrun.

Forsaga málsins eru fjárfestingar á Keflavíkurflugvelli fyrir hrun í gegn um Fjárfestingarfélagið Teig ehf. Árið 2008 seldi Runólfur Sparisjóðabankanum (þá Icebank) félagið og eignir þess á rúmar 350 milljónir króna. Hluti kaupverðs var greiddur með hlutafé í bankanum sem varð verðlaust skömmu síðar, hluti kaupverðs var aldrei greiddur þar sem bankinn fór í þrot áður en til greiðslu kom og hluta kaupverðs notaði hann til að greiða skuldir sem til voru komnar vegna þessara fjárfestinga.

Héraðsdómur sýknaði Runólf af kröfu slitastjórnar SPB, en Hæstiréttur komst í dag að annarri niðurstöðu.

Greitt var rúmlega 300 milljónir fyrir hlutinn í Fjárfestingarfélaginu Teigi ehf. „Stefndi [Runólfur] hefur hvorki með yfirmati né á annan hátt hnekkt því mati hinna dómkvöddu manna í matsgerðinni 20. ágúst 2012 að verðmæti félagsins hafi á kaupsamningsdegi verið á bilinu 16.182.399 krónur til 47.171.587 krónur. Telst samkvæmt þessu sannað að sú ráðstöfun, sem fólst í greiðslu áfrýjanda til stefnda 1. júlí 2008 að fjárhæð 25.000.000 krónur hafi verið örlætisgerningur,“ segir í niðurstöðum Hæstaréttar.

„Þessi viðskipti hafa ekki orðið mér til gæfu“

„Þessi viðskipti hafa ekki orðið mér til gæfu,“ segir Runólfur í pistli á netinu. „Þau voru gerð í anda græðgi og auðsöfnunar áranna fyrir hrun og af þátttöku minni í þeim dansi er ég ekki stoltur,“ segir Runólfur.

Runólfur segist núna standa frammi fyrir því að þurfa að greiða rúmlega 100 milljónir. „Þeir peningar eru ekki til á mínu heimili fremur en flestum öðrum,“ segir Runólfur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert