Hjá Flúðasveppum er nú unnið að því að auka D-vítamínmagn í sveppum. Það er gert með því að lýsa sveppina og gangi áætlanir eftir munu þessir vítamínbættu sveppir fást í verslunum fyrir jólin.
Að sögn Georgs Ottóssonar, eiganda og framkvæmdastjóra Flúðasveppa, er þetta unnið í samstarfi við Matís og til þess að ná þessu fram þarf að lýsa sveppina í um 20 mínútur.
„Ég frétti af þessu frá Bandaríkjunum fyrir um einu og hálfu ári og hef síðan þá verið að gera tilraunir með þetta. Niðurstöðurnar lofa góðu,“ segir Georg í samtali í Morgunblaðinu í dag. „Það er örlítið magn D-vítamíns í sveppum, en með því að lýsa þá er hægt að áttfalda magnið.“