Aðallega sýknað í meiðyrðamáli Egils

Egill Einarsson og lögmaður hans, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.
Egill Einarsson og lögmaður hans, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson. mbl.is/Rósa Braga

Ingi Kristján Sigurmarsson var í dag sýknaður af meiðyrðum í garð fjölmiðlamannsins Egils Einarssonar. Ein ummæli Sunnu Ben Guðrúnardóttur voru dæmd dauð og ómerk en hún sýknuð að öðru leyti. Hún þarf ekki að greiða bætur en Agli er gert að greiða málskostnað Inga Kristjáns.

Annars vegar var um að ræða mál á hendur Inga Kristjáni Sigurmarssyni sem teiknaði ókvæðisorð á mynd af Agli og birti á Instagram. Fjallað var um aðalmeðferð í málinu á mbl.is og hér má sjá hvað Ingi Kristján hafði að segja fyrir dóminum. Egill sagði við sama tækifæri að það hefðu verið margar andvökunætur eftir að hann sá myndina.

Haukur Guðmundsson, lögmaður Inga Kristjáns, sagði í ræðu sinni að umrædd mynd hefði ekki verið af Agli heldur af Gillz. „Ummæli um skáldaðar persónur varða ekki við lög. Það er ekki hægt að meiða æru Bogomil Font,“ sagði Haukur. Á þetta féllst Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Egils, alls ekki. „Hann taldi sig þess umkominn að saka stefnanda [Egil] um nauðgun og kalla hann aumingja og antikrist. Og aftaka hans fór fram án dóms og laga. Og það er enginn annar en stefndi [Ingi Kristján] sem getur borið ábyrgð á birtingu og dreifingu þessarar ljósmyndar.

Hins vegar var um að ræða mál á hendur Sunnu Ben Guðrúnardóttur. Hún skrifaði ummæli um Egil á spjallþráð á samfélagsvefnum Facebook. Tilefnið var forsíðuviðtal sem birtist við Egil í Monitor, fylgiriti Morgunblaðsins, þann 22. nóvember 2012. Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður Sunnu Ben, sagði meðal annars að „hatursáróður“ Egils í gegnum árin hefði rýmkað mörk tjáningarfrelsis gegn honum sjálfum. Vilhjálmur sagði hins vegar hafið yfir allan vafa Sunna Ben hefði vegið að æru Egils með alvarlegum hætti og sakað hann um lögbrot sem hann framdi ekki. Ummælin væru ósönn og smekklaus og til þess fallin að sverta æru Egils.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert