DV fækkar útgáfudögum úr 3 í 2

DV hefur ákveðið að fækka útgáfudögum blaðsins úr þremur á viku í tvo. Jafnframt ætlar blaðið að efla netútgáfuna.

Í fréttatilkynningu frá DV segir að í nóvember verði fjölgað á ritstjórn DV.is og opnaður fyrsti héraðsfréttavefur DV. Um er að ræða fréttavef fyrir Suðurnesjamenn með fréttum af fólki og atburðum í heimahéraði, þar sem áhersla verður lögð á áhugverðar fréttir og óháða rannsóknarblaðamennsku.

Með héraðsáskrift fylgir almenn vefáskrift að öllum fréttum DV í kaupbæti og einnig munu prentáskrifendur DV fá aðgang að héraðsfréttunum. „Samhliða þessu verður útgáfutíðni prentútgáfu DV breytt frá og með desembermánuði. Mánudags- og miðvikudagsblöð DV verða sameinuð í stærra vikublað sem kemur út á þriðjudögum. Með sameiningunni verður engin fækkun á útgefnum prentsíðum hjá DV, þar sem sameinað blað verður hátt í tvöfalt stærra en blöðin í sitt hvoru lagi, auk þess sem helgarblað DV verður stækkað.

Heildaráhrif breytingarinnar á útgáfunni verða að ritstjórn DV stækkar og áskrifendur DV fá meira efni. Allir áskrifendur að prentútgáfu DV geta fengið vefáskrift í kaupbæti. Með þessum breytingum vill DV forgangsraða efninu fram fyrir formið. Yfir 300 þúsund notendur eru að fréttavef DV á netinu í hverri viku og hafa auglýsingatekjur DV á netinu meira en þrefaldast á þremur árum. Auk þess hefur netáskrifendum fjölgað verulega síðastliðið ár. Tilgangur og markmið DV er að flytja almenningi fréttir óháð valdablokkum og hliðvörðum í samfélaginu, vegna þess að óháð miðlun upplýsinga er ein helsta grundvallarstoð lýðræðisríkja. Um helmingur tekna DV kemur frá áskrifendum og miðast ritstjórnarstefna DV við hagsmuni almennings. Viðtökur við héraðsfréttavef DV munu ráða því hvort opnaðir verði óháðir fréttavefir í fleiri landshlutum á næstunni,“ segir í fréttatilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert