Fálki einn hefur að undanförnu vanið komur sínar á hafnarbakkann við Dalvík, hafnarstarfsmönnum til nokkurrar gleði. Síðustu árin hefur verið krökkt af máfum við höfnina, en síðustu daga hafa þeir varla sést á svæðinu Telja má líklegt að máfarnir óttist fálkann, en einn þeirra fékk að kenna á honum í gær.
Í gær greip fálkinn máf einn á flugi og lenti með hann á hafnarbakkanum. Að sögn Hilmars Hennings Heimissonar, starfsmanns Landflutninga-Samskipa, hélt fálkinn máfinum niðri og drap hann með að hakka máfinn í sig. Hann tók myndskeið af fuglunum og komst hann í eins metra fjarlægð frá þeim.
„Fálkinn heldur máfunum í burtu, við tökum honum fagnandi,“ segir Hilmar.