Gunnar Einarsson, stjórnarformaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, segir að ef ekki komi fram skýr afstaða frá stjórnvöldum um hvernig þau vilji haga sjúkraflutningum á höfuðborgarsvæðinu fari sveitarfélögin að huga að því að slíta samstarfinu. Það feli m.a. í sér uppsögn starfsmanna.
Eftir að fjárlagafrumvarpið var lagt fram sendi Stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins velferðarráðuneytinu bréf þar sem sagði að ef ekki verið búið að ganga fram samningum um sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu fyrir 1. nóvember muni stjórnin slíta samstarfinu.
Samkvæmt heimildum mbl.is hefur Kristján Þór Júlíusson, velferðarráðherra, sent stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bréf þar sem vakin er athygli á að samkvæmt samningi um sjúkraflutninga, sem rann út í lok árs 2011, ber slökkviliðinu að sinna sjúkraflutningum í sex mánuði eftir að samstarfi lýkur. Ráðherra segist vonast eftir að á þeim tíma takist aðilum að ná samkomulagi um að halda samstarfinu áfram.
„Við viljum fá skýr svör,“sagði Gunnar í samtali við mbl.is í dag, en hann var þá ekki búinn að sjá bréfið.
Gunnar sagðist hafa tekið þátt í viðræðum í þrjá mánuði í fyrravetur um þetta mál. Niðurstaða hefði fengist eftir að báðir aðilar slóu af kröfum sínum. Fjármálaráðuneytið hefði hins vegar ekki enn staðfest samninginn og málið væri því enn í óvissu. Hann sagði löngu tímabært að binda enda á þessa óvissu. Stjórnvöld yrðu að taka ákvörðun um hvort þau vilja staðfesta þennan samning eða taka þessa flutninga alfarið til sín.
Gunnar sagði að ef ríkið gæfi ekki skýr svör við bréfi stjórnar Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðisins ætti stjórnin ekki annan kost en að hefja undirbúning að því að slíta samstarfi slökkviliðs og sjúkraflutninga. Það fæli m.a. í sér uppsagnir starfsfólks.
Gunnar sagði að sveitarfélögin myndu einnig hefja undirbúning að því að stefna ríkinu vegna vangreiddra gjalda, en hann sagði að ríkið hefði ekki verið að greiða að fullu þann kostnað sem slökkviliðið hefði af sjúkraflutningum.