Bæjarráð Vestmannaeyja samþykkti í gær ályktun þar sem hörmuð er sú niðurstaða Siglingastofnunar að ekki sé unnt að fá undanþágu fyrir Baldur til siglinga í Landeyjahöfn.
Engin ferja hafi fundist sem gegnt gæti sama hlutverki og Baldur. Því sé einsýnt að smíða þurfi nýja ferju. Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, segir vonbrigðin mikil.
„Við höfðum að sjálfsögðu áhuga á að skoða hvort hægt væri að fá ferjuna Baldur til að halda uppi samgöngum í Landeyjahöfn til viðbótar við Herjólf. Okkar upplýsingar bentu til þess að Baldur gæti siglt í 3,3 metra ölduhæð, en í ljósi þess að Herjólfur hefur ekki ráðið við meira en 2,5 metra vildum við fullkanna þennan möguleika,“ segir Elliði í Morgunblaðinu í dag.