Nagladekk leyfileg en óæskileg

„Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár bent á að notkun nagladekkja innan borgarmarka er óþörf. Drög að reglugerð um mynstur hjólbarða, ný könnun á samsetningu svifryks og enn betri aðstæður fyrir vistvæna samgöngumáta styðja þá ábendingu.“

Þetta segir í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg í tilefni af því að frá og með deginum í dag og fram til 15. apríl á næsta ári er heimilt að aka á nagladekkjum. Fram kemur í tilkynningunni að þó notkun nagladekkja sé heimil á þessu tímabili sé hún óæskileg. „Nagladekk auka kostnað á viðhaldi gatna í Reykjavík og eldsneytiskostnað bifreiða, þau valda óþarfa hávaða og draga úr loftgæðum. Neikvæð áhrif svifryks í andrúmslofti á heilsu manna hafa komið sífellt betur í ljós á síðustu árum. Ný rannsókn sýnir að hlutfall malbiks í svifryki hefur snarlækkað.“

Minnt er á að samkvæmt drögum að nýrri reglugerð um gerð og búnað ökutækja verði ökumönnum gert skylt að nota vetrardekk á tímabilinu 1. nóvember til 15. apríl. Þá sé gerð krafa um þriggja millimetra lágmarksdýptar mynsturs slíkra dekkja á fólksbifreiðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert