Ákveðið hefur verið að draga flutningaskipið Fernöndu út úr Hafnarfjarðarhöfn, en eldur gaus upp í skipinu eftir að það kom í höfnina í morgun. Gríðarlegan reykur leggur frá skipinu og yfir byggðina í Hafnarfirði.
Slökkviliðsmenn eru að fjarlægja búnað sem þeir voru búnir að fara með í skipið og verið er að koma taug fyrir þannig að hægt sé að draga skipið út.
Búið er að kalla út aukinn mannskap frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og eru nærri 80 menn að störfum í Hafnarfjarðarhöfn.
Óli Ragnar Gunnarsson, varðstjóri hjá slökkviliðinum, sagði í samtali við mbl.is í morgun að slökkviliðið hefði ekki búist við að svona mikill eldur væri enn í skipinu.
Varðskipið Þór tekur þátt í slökkvistarfinu, en skipið er búið öflugum dælum.
Um 100 tonn af olíu var í Fernöndu þegar eldur kviknaði. Eitt af því sem verið er að skoða er hvort hætta sé á sprengingu í skipinu.
Slökkvistarf í skipum er meðal erfiðustu verkefna sem slökkvið fást við. Eldurinn brennur þá í lokuðu rými og mikill hiti gerir slökkviliðsmönnum erfitt um vik að fást við eldinn. Algengt er að slökkvistarf taki marga klukkutíma.
Fulltrúi Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar og Kópavogs er í Hafnarfjarðarhöfn og fylgist með ástandinu, en í morgun sendi slökkviliðið frá sér tilmæli til íbúa í Hafnarfirði um að loka gluggum.