Smálánafyrirtæki voru sökuð um það á Alþingi í dag að sniðganga ný lög um neytendalán með því að taka upp sérstakt gjald fyrir flýtiþjónustu. Þetta kom fram í ræðu sem Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, flutti undir dagskrárliðnum umræður um störf þingsins.
Sagði hann fyrirtækin sem fyrr okra á almenningi en flýtigjaldið jafngilti mörg hundruð prósenta vöxtum „af lánum til fólks sem oft á við mikinn vanda að stríða." Óþolandi væri að lögin væru sniðgengin með þessum hætti. Umrædd lög um neytendalán taka gildi í dag en með þeim eru gerðar ýmsar kröfur til fjármálafyrirtæki vegna lánastarfsemi þeirra. Meðal annars er sett hámark á leyfilega vexti.
„Hér í kringum okkur höfum við dæmi um að settar hafa verið skorður við því hversu fljótt megi afgreiða lán. Ef fyrirtækin komast upp með þá sniðgöngu sem þau stunda nú tel ég fulla ástæðu til að skoða það alvarlega hvort ekki sé einhver lágmarkstími sem þurfi að líða frá því að lán eru samþykkt og þangað til fólk fær þau í hendurnar eins og tíðkast meðal annars í nágrannalöndunum,“ sagði Helgi ennfremur.