„Þá fá allir eitthvað fyrir sinn snúð“

Lögmenn í máli sérstaks saksóknara gegn stjórnendum Milestone.
Lögmenn í máli sérstaks saksóknara gegn stjórnendum Milestone. mbl.is/Rósa Braga

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst í dag á kröfu verjenda í máli sérstaks saksóknara gegn stjórnendum Milestone og þremur endurskoðendum frá KPMG um að saksóknara sé óheimilt að leggja fram sex skýrslur rannsakenda. Dómari hafnaði hins vegar kröfu um að einnig væri óheimilt að leggja fram tímalínu í málinu og fylgigögn með henni.

Í málinu eru Guðmundur Ólason, forstjóri Milestone, Karl Wernersson, stjórnarformaður, og Steingrímur Wernerson, stjórnarmaður, ákærðir fyrir umboðssvik, meiriháttar brot á bókhaldslögum og lögum um ársreikninga í tengslum við greiðslur til Ingunnar Wernersdóttur en þær námu á sjötta milljarð króna. Þá eru endurskoðendurnir Hrafnhildur Fanngeirsdóttir, Margrét Guðjónsdóttir og Sigurþór Charles Guðmundsson, öll frá endurskoðunarfyrirtækinu KPMG, ákærð fyrir brot gegn lögum um endurskoðendur. Þau Margrét og Sigurþór eru ennfremur ákærð fyrir meiriháttar brot á lögum um ársreikninga.

Í ákærunni kemur fram að háttsemi Werner-bræðra og Guðmundar hafi falist í því að þeir létu Milestone fjármagna kaup bræðranna á hlutafé systur þeirra, Ingunnar, í félaginu.

Ólafur Eiríksson, lögmaður Karls Emils Wernerssonar, sagði við málflutning ljóst að skýrslurnar væru skriflegur málflutningur auk þess sem skýrslurnar væru dagsettar eftir að málið var þingfest. Hann sagði augljóst að skýrslurnar gætu ekki talist sönnunargögn í málinu, framlagningin bryti hreinlega gegn sakamálalögum.

Arnþrúður Þórarinsdóttir, saksóknari hjá sérstökum saksóknara, sagði hins vegar að að aðeins væri um að ræða athugun lögreglu og niðurstöðu hennar.

Héraðsdómari féllst eins og áður segir á kröfu verjenda hvað varðar skýrslurnar sex og meinaði saksóknara að leggja þær fram sem gögn. Hins vegar hafnaði hann kröfu verjenda um að meina saksóknara einnig að leggja fram tímalínu og fylgigögn hennar. Þar er um að ræða framsetningu á fyrirliggjandi gögnum. 

„Þá fá allir eitthvað fyrir sinn snúð,“ sagði Arngrímur Ísberg, dómari málsins, eftir að hann kvað upp úrskurðinn. Saksóknari í málinu var þó ekki sáttur með sinn hlut og tilkynnti umsvifalaust að úrskurðurinn sé kærður til Hæstaréttar hvað varðar skýrslurnar. Verjendur tóku sér frest til að meta hvort þeir kæri einnig og rennur sá frestur út á hádegi á mánudag.

Frétt mbl.is: Allir sakborningar neituðu sök

Frétt mbl.is: „Kasta rýrð“ á Milestone-menn

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert