Tíst lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt og aðrar upplýsingar frá lögreglunni sýna að einhverjir hafa verið viti sínu fjær af völdum áfengis og fíkniefnaneyslu í nótt. Mikill erill var í miðborginni og víðar og þurfti lögreglan að sinna útköllum á skemmtistöðum og í heimahúsum um allt höfuðborgarsvæðið.
Á höfuðborgarsvæðinu komu upp fjölmörg fíkniefnamál í gær og í nótt og á Selfossi voru tveir teknir með fíkniefni. Á Akureyri óku tveir undir áhrifum fíkniefna og þurfti lögreglan að veita honum eftirför þar sem hann ók á miklum hraða í gegnum íbúðahverfi.
Ef rennt er í gegnum tíst lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu má sjá færslur eins og tilkynningu um mann sem svaf ölvunarsvefni á umferðareyju. Var það lögreglan sem tók það að sér að vekja manninn. Einum ölvuðum var komið til aðstoðar þar sem hann „hékk“ á rafmagnskassa. Tilkynnt um konu í andnauð en í ljós kom að hún var svo ofurölvi að hún náði ekki andanum. Var henni ráðlagt að koma sér í háttinn.
Þrír voru handteknir í fíkniefnamáli en þeir voru allir undir áhrifum fíkniefna og var bílstjóri bifreiðarinnar þar ekki undanskilin. Eins voru þeir allir með fíkniefni á sér.
Slagsmál á skemmtistöðum og víðar og dyravörum komið til aðstoðar í baráttunni við æstan gest. Leigubílstjórar aðstoðaðir með farþega sem eru til vandræða.