Morgunblaðið er hundrað ára í dag en það kom fyrst út 2. nóvember 1913. Með blaðinu fylgir rúmlega hundrað síðna afmælisblað þar sem stiklað er á stóru í viðburðaríkri sögu blaðsins. Samanlagt er aukablaðið og laugardags- og sunnudagsblaðið 248 blaðsíður.
Meðal efnis í afmælisblaðinu eru viðtöl við Matthías Johannessen og Styrmi Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóra blaðsins, sem líta um öxl.
Haraldur Johannessen, ritstjóri Morgunblaðsins, segir útlitið bjart á aldarafmæli blaðsins.
„Afmælisárið hefur verið viðburðaríkt og gott á Morgunblaðinu. Blaðið býr að einstakri sögu sem nýtist því vel og það er nú að eflast á ný eftir erfiðleika um hríð. Dæmi um mikinn þrótt blaðsins er 100 daga ferð þess um landið þar sem því hefur hvarvetna verið vel tekið og það hefur getað flutt lesendum sínum áhugavert efni um þann fjölbreytileika og kraft sem er að finna um allt land. Morgunblaðið er nú sem fyrr blað allra landsmanna og hefur á þessu stórafmæli ástæðu til að horfa björtum augum til framtíðar,“ segir Haraldur.