Ríkisstjórnin aldrei óvinsælli

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á Bessastöðum.
Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á Bessastöðum. mbl.is/Golli

Stuðningur við ríkisstjórnina hefur ekki verið eins lítill frá kosningum samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup. Núna segjast 46 prósent aðspurðra styðja ríkisstjórnina, fyrir mánuði sögðust 50 prósent styðja hana en þegar hún var mynduð studdu hana 62 prósent landsmanna. 

Ríkisútvarpið sagði frá þessu í kvöldfréttum.

Fylgi Framsóknarflokksins heldur áfram að dala samkvæmt Þjóðarpúlsinum. Hann er með 14 prósenta fylgi og hefur fylgi hans minnkað um 10 prósentustig frá kosningum, þegar hann naut stuðnings fjórðungs kjósenda.

Fylgi hins stjórnarflokksins, Sjálfstæðisflokks, er hins vegar stöðugt í 27 prósentum, sem er svipað fylgi og flokkurinn fékk í kosningunum fyrir hálfu ári.

Fylgi nýju flokkanna er nokkuð stöðugt á milli kannana, Björt framtíð er með 10 prósent, líkt og fyrir mánuði, og Píratar eru með 8 prósent nú en voru með 7 síðast. Báðir flokkar hafa bætt við sig fylgi frá kosningum.

Samfylkingin bætir við sig tveimur prósentustigum frá síðustu könnun og mælist nú með 18 prósenta fylgi. Flokkurinn hefur bætt við sig 5 prósentustigum frá kosningum þar sem hann beið afhroð.

Loks hefur fylgi Vinstri grænna minnkað lítillega frá síðustu könnun, það mælist nú 14 prósent en var 15 prósent í síðustu könnun. 20 prósent aðspurða taka ekki afstöðu, neita að gefa hana upp eða segjast myndu skila auðu eða sitja heima ef kosið yrði til Alþingis í dag.

Tæplega 5.600 manns voru í úrtaki Gallup og um 60% eða um 3.400 manns svöruðu spurningum í könnuninni, að því er fram kemur í frétt Rúv.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert