Boðar fjárveitingu til tækjakaupa

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra. Alþingi.
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra. Alþingi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir að í byrjun desember verði kynnt áætlun um endurnýjun tækja og búnaðar í heilbrigðisþjónustunni, fram til ársins 2017. Hann segir alla sammála um að töluverða fjármuni þurfi í þau verkefni sem þarf að vinna. „Og ég hef hug á því að bæta úr,“ sagði Kristján í viðtali við Sigurjón M. Egilsson á Sprengisandi í dag.

Hann sagði alveg ljóst að sum tæki á spítölum lansdins væru úr sér genginn. „Að sjálfsögðu eigum við að bæta úr þessum þáttum, og það verður gert,“ sagði heilbrigðisráðherra.

Raunar sagði hann að það hefði alla tíð staðið til enda hefði skýrt verið tekið fram í fjárlagafrumvarpinu að slíkar aðgerðir yrðu kynntar fyrir ríkisstjórn og fjárlaganefnd við aðra umræðu. Sagðist hann þetta ekki hafa komist til skila „í öllum hamaganginum“.

Önnur umræða um fjárlagafrumvarpið hefst 2. desember á Alþingi. Sigurjón spurði hvort það mætti þá skilja hann sem svo að ekki yrði dregið úr 600 milljóna króna viðbótarfjárveiting síðustu fjárlaga, sem felld var niður í frumvarpinu, og Kristján játti því.

Hann sagði þó heilbrigðiskerfið mun stærra mál en bara Landspítalann. „Heilsugæslan er okkar styrkur úti á vettvangi og ég hyggst byrja þar á því að styrkja heilbrigðiskerfið á Íslandi, því þar liggur grunnurinn,“ sagði Kristján.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert