Íslendingar í forréttindastöðu í Noregi

Hauststemning á bryggjunni í miðborg Ósló.
Hauststemning á bryggjunni í miðborg Ósló. mbl.is/Golli

Íslendingar eru sjaldan taldir til innflytjenda í Noregi, ólíkt öðrum innflytjendum sem skera sig „óþægilega“ úr. Sjálfir líta Íslendingar í Noregi heldur ekki endilega á sig sem innflytjendur, en allur gangur er þó á því hversu vel og fljótt þeim gengur að aðlagast norsku samfélagi, að sögn Guðbjartar Guðjónsdóttur sem rannsakar nú reynslu Íslendinga sem flust hafa til Noregs í kreppunni.

„Í innflytjendafræðunum almennt er áherslan nánast öll á fólk utan Vesturlanda sem flytur í þennan heimshluta, en lítil sem engin á fólk sem flytur innan Vesturlanda og eins milli Norðurlanda. Í umræðunni er sá hópur heldur ekki settur fram sem vandamál,“ segir Guðbjört.

Tvöfalt fleiri Íslendingar en fyrir hrun

Tæpur þriðjungur af þeim íslensku ríkisborgurum sem fluttu af landi brott eftir efnahagshrunið 2008 fóru til Noregs og hefur fjöldi Íslendinga í Noregi rúmlega tvöfaldast eftir hrun. Guðbjört hefur í ár og í fyrra tekið viðtöl við Íslendinga í Noregi fyrir doktorsrannsókn sína í mannfræði við Háskóla Íslands. Eftir er að vinna úr viðtölunum en Guðbjört kynnti frumniðurstöðurnar á Þjóðarspegli félagsvísindadeildar.

Hún segir að í Noregi sé í raun sett samasammerki milli orðsins „innflytjandi“ og þess að vera dökkur á hörund og kominn langt að. Tölur norsku hagstofunnar taka þó til þeirra allra, óháð húðlit og uppruna. Það má því segja að nokkur skekkja sé þarna á milli því þegar talað er um fjölda innflytjenda í landinu sjá margir fyrir sér mun einsleitari hóp en raunverulega er bak við tölurnar. 

Yfir 8 þúsund Íslendingar í Noregi

Því staðreyndin er sú að flestir innflytjendur í Noregi koma frá Póllandi og Svíþjóð. Auk þess búa yfir 8 þúsund Íslendingar í Noregi og má segja að Íslendingar hafi ákveðna forgjöf þar miðað við marga aðra hópa.

„Það eru alls konar hugmyndir uppi um að Íslendingar séu upprunalegir Norðmenn, en auðvitað er það ekki svo einfalt. Það er talað eins og þeir hafi verið á Íslandi í einhvers konar einangrun og séu komnir aftur heim. Þannig að hugmyndir Norðmanna um Íslendinga eru mjög jákvæðar og þegar þeir segjast vera frá Íslandi fá þeir oft mun betra viðmót,“ segir Guðbjört.

Áhugavert er hins vegar að velta fyrir sér hinni hliðinni á þessum peningi. Guðbjört segir þetta jákvæða viðhorf til Íslendinga í raun hluta af stærri mynd sem felst í því að fólk er dæmt fyrirfram út frá því hvernig það lítur út og hvaðan það er.

Íslendingar hagnast á mismunun

„Að skoða þennan hóp varpar ákveðnu ljósi á stöðu annarra innflytjenda. Íslendingar búa  eiginlega við viss forréttindi í norsku samfélagi, sem þýðir að það er mismunun í gangi undir niðri. Það er til dæmis mjög meðvitað sem flestir Íslendingar í húsnæðisleit taka það fram í auglýsingunni hvaðan þeir eru, því það er alveg vitað mál að þá færðu jákvæðari viðbrögð. En með þessu ertu að taka þátt í og á vissan hátt að hagnýta þér kerfi sem mismunar fólki.“

Að sögn Guðbjartar er t.d. áberandi í umræðum á netinu að þeir Norðmenn sem viðhafa þjóðerniskennda hatursorðræðu gegn sumum hópum innflytjenda í Noregi, eins og múslímum, hampa oft Íslendingum og bjóða þá velkomna til landsins um leið og þeir fordæma aðra innflytjendur.

Ætluðu ekki að hópa sig saman en gerðu það samt

Eftir sem áður er nokkuð misjafnt hversu auðveldlega Íslendingar aðlagast norsku samfélagi. Þeir sem hafa áður verið í öðrum löndum á Norðurlöndum og ná hratt tökum á tungumálinu standa betur að vígi. Guðbjört segir að margir í þessum hópi líti sjálfir ekki á sig sem útlendinga í Noregi.

Sumir upplifa meiri erfiðleika við að aðlagast en þeir bjuggust við, til dæmis þeir sem ekki voru sterkir fyrir í dönsku. Þá nefnir Guðbjört dæmi um íslenska konu sem hefur orðið fyrir aðkasti úti á götu vegna þess að hún hefur ekki dæmigert norrænt útlit.

Margir Íslendinganna sem Guðbjört ræddi við nefndu að þeir skildu það betur eftir þá reynslu að flytja út hvers vegna innflytjendur af sama uppruna hópi sig oft saman. 

„Innflytjendur eru oft gagnrýndir fyrir að halda hópinn, en þau höfðu mörg skilning á því af því að Íslendingar gera það líka. Jafnvel þótt þeir hafi alls ekki ætlað sér það þá þróast það þannig því fólk á auðvelt með að tengja við aðra Íslendinga. En þetta á samt alls ekki við um alla.“

Myndu ekki sætta sig við sömu aðstæður á Íslandi

Þannig eru Íslendingar í Noregi að sjálfsögðu fjölbreytilegur hópur. Margir þeirra eiga það þó sameiginlegt að hafa alls ekki verið í þeim hugleiðingum fyrir efnahagshrun að flytja úr landi. 

„Sumir búa við aðstæður sem þeir myndu ekki sætta sig við heima á Íslandi. Þeir eru kannski í þeim sporum að vera að senda pening heim til fjölskyldunnar eða spara við sig í húsnæði því þeim finnst það svo yfirgengilega dýrt,“ segir Guðbjört.

„Einn sagði við mig „já, við erum bara farandverkamenn hér, alveg eins og Pólverjar,“ á meðan annar sagði „nei, það er ekki hægt að líkja þessu saman. Ég er ekki útlendingur heldur á ég heima hér“.

Fjöldi Íslendinga hefur rúmlega tvöfaldast í Noregi eftir hrun enda …
Fjöldi Íslendinga hefur rúmlega tvöfaldast í Noregi eftir hrun enda hafa verið haldnir fjölmennir kynningarfundir hér á landi um atvinnumöguleika í Noregi. mbl.is/Golli
Ráðhúsið í Ósló.
Ráðhúsið í Ósló. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert