Kökurnar kláruðust á klukkutíma

Það var handagangur í öskjunni á jólabasar Hringskvenna á Grand hóteli í dag. Að sögn Valgerðar Einarsdóttur, formanns Hringsins, hafa aldrei jafn margir mætt á basarinn og í dag og kláruðust kökurnar á klukkutíma. Söluandvirðið rennur í sjóð sem notaður er í tækjakaup fyrir barnaspítala Hringsins.

Að sögn Valgerðar hafa fleiri notið góðs af starfi Hringsins því kvenfélagið hefur einnig safnað fyrir barna- og unglingageðdeildna (BUGL) og Sjónarhól, samtök barna með sérþarfir.

Basarinn hófst klukkan 13 og var fullt út að dyrum skömmu eftir að salan hófst enda árleg hefð hjá fjölmörgum að kaupa gjafir á basarnum. Jólabasar Hringsins hefur verið haldinn á hverju ári í áratugi.

Að sögn Valgerðar hittast Hringskonur á þriðjudagskvöldum allan veturinn með hannyrðir sínar og undirbúa fyrir basarinn. Nú stendur yfir vertíð hjá Hringskonum því auk þess að standa fyrir basarnum selja þær jólakort og eru með jólakaffi í byrjun desember. Allt í þágu góðs málefnis.

„Hringurinn er kvenfélag, stofnað árið 1904. Félagið  hefur að  markmiði að vinna að líknar- og mannúðarmálum, sérstaklega í þágu barna. Aðalverkefni félagsins um áratugaskeið hefur verið uppbygging Barnaspítala Hringsins. Mörg önnur verkefni, sem tengjast veikum börnum, hafa verið studd og styrkt. Þau stærstu eru uppbygging barna- og unglingageðdeildar Landspítala og rekstur Sjónarhóls, ráðgjafamiðstöðvar barna með sérþarfir.

Í félaginu eru nú 335 konur á öllum aldri. Félagsfundir eru haldnir einu sinni í mánuði á veturna, félagskonum til fræðslu og skemmtunar. Starfsemin byggist hins vegar fyrst og fremst á því mikla starfi sem fram fer í nefndum félagsins.

Fjáröflunarleiðirnar eru söfnunarbaukar, sem staðsettir eru víða, s.s. í Leifsstöð, jólakaffi og happdrætti, sem haldin eru á aðventunni á hverju ári, jólabasarinn, sem haldinn er í nóvember á hverju ári, minningarkortin, sem seld eru allt árið, jólakortin og veitingasalan í Barnaspítalanum,“ segir á vef Hringsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Ásthildur Cesil Þórðardóttir: Ha!
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert