Sæstrengur milli Íslands og Bretlands yrði kostnaðarsöm framkvæmd en ætti að geta reynst hagkvæmt verkefni fyrir alla aðila og er nákvæmlega það sem helst vantar í breska raforkukerfið.
Þetta er meðal þess sem fram kom í máli Pauls Johnson, forstöðumanns þróunar hjá National Grid, bresks flutningsfyrirtækis raforku, á ráðstefnu í húsakynnum Bloomberg-fréttaveitunnar í London á föstudag.
Á ráðstefnunni, sem bar heitið Iceland Energy Summit, kom einnig fram að mikill áhugi er á verkefninu meðal breskra stjórnvalda og meðal fjárfesta. Þetta kemur fram á vef Samorku. Þá kemur fram, að á ráðstefnunni hafi breski þingmaðurinn og fyrrum orkumálaráðherrann Charles Hendry sagst vera sannfærður um að í Bretlandi væri pólitískur vilji til staðar til að skoða málið í þaula.