„Hvað varðar framgang þessara mála hef ég lýst því yfir að þau geti leyst tiltölulega hratt á fáeinum mánuðum ef menn komast að sameiginlegri niðurstöðu um hvað sé ásættanlegt. Það er hvað leyfi afnám hafta, og þannig raunar svarað spurningunni nákvæmlega á sama hátt og hæstvirtur fjármálaráðherra. Allt veltur þetta á því að kröfuhafar þrotabúanna búi til þær aðstæður að þær leyfi stjórnvöldum að aflétta höftunum.“
Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar. Árni spurði ráðherrann að því hver staðan væri nákvæmlega varðandi viðræður við kröfuhafa gömlu bankanna. Sagði hann Sigmund hafa talað út og suður um málið og ýmist sagt að það gæti tekið skamman tíma að lenda því eða að það gæti tekið mjög langan tíma. Vitnaði hann í viðtal Reuters-fréttaveitunnar við ráðherrann þar sem haft væri eftir honum að nokkur ár gætu liðið þar til viðræðum við kröfuhafanna lyki.
Forsætisráðherra svaraði því ekki nánar hversu langan tíma viðræðurnar gætu tekið en lagði hins vegar áherslu á að ríkisstjórnin væri ekki aðili að þeim. Sagði hann að það virtist vera „viðvarandi misskilningur víða erlendis eftir undangengin ár, að íslensk stjórnvöld eigi í viðræðum við kröfuhafa og um sé að ræða skuldir íslenska ríkisins. Það virðist með öðrum orðum hafa gleymst að koma því á framfæri undanfarin fjögur ár að hér er ekki um að ræða skuldir íslenska ríkisins, ekki frekar en í deilunni um Icesave. En þessi misskilningur virðist enn viðvarandi víða erlendis en ég, eins og ég gat um, nota hvert tækifæri til að reyna að eyða honum.“
Ennfremur sagði Sigmundur að líklega hefði verið búið of vel að kröfuhöfum bankanna hér á landi undanfarin ár. „Íslensk stjórnvöld virðast hafa gert ráð fyrir því að þetta mál mundi leysast á tiltölulega skömmum tíma en við sjáum hins vegar að það hefur núna varað í nokkur ár og getur ekki talist eðlilegt að viðhalda því fyrirkomulagi sem síðasta ríkisstjórn kom á.“ Þá sagði hann ennfremur að það væri ekki eðlilegt fyrirkomulag að fyrirtæki væru í slitameðferð árum saman.
„Ef menn horfa ekki fram á það að hér skapist einhver lausn hljótum við að þurfa að laga aðstæður að því og nú er tekin til starfa þverpólitísk nefnd sem mun fylgjast með framgangi þeirra mála.“