Mikil reiði ríkir meðal fanga á Litla-Hrauni

Fangelsið á Litla-Hrauni.
Fangelsið á Litla-Hrauni.

Formaður hagsmunafélags fanga segir mikla reiði ríkja meðal fanga á Litla-Hrauni með stjórnunarhætti Margrétar Frímannsdóttur, forstöðumanns fangelsisins, og annarra stjórnenda. Til dæmis hafi íþróttahúsinu verið lokað án skýringa og síðast hafi verið ruðst inn í heimsóknarherbergi þar sem par var í ástaratlotum.

„Forsaga málsins er sú að maðurinn kom hingað til afplánunar fyrir þremur mánuðum. Svo tók einhverja tvo mánuði að fá unnustu hans samþykkta í heimsókn. Þetta hefur verið í annað eða þriðja skiptið sem hún kom í heimsókn. Þau fara inn í gestaherbergi þar sem þau eiga sína prívat stund,“ segir Þór Óliver Gunnlaugsson, formaður Stoða, hagsmunasamtaka fanga. „Þá koma þeir tveir, deildarstjóri og varðstjóri, og brjóta upp hurðina, ryðjast inn og ráðast að fólkinu, skipa því á fætur og heimta að stúlkan standi þarna fyrir framan þá, en þau voru allsnakin. Og skýringin er að fíkniefnaleitarhundur hafi merkt lykt.“

Þór Óliver segir að ekkert hafi fundist á parinu, enda hann á fyrirmyndargangi fangelsisins og hún tiltölulega nýbökuð móðir. „Þetta er ekki í fyrsta skipti sem deildarstjórinn misnotar dýrið til að gera það sem honum sýnist. Hann segir að hundurinn merki lykt á fólki sem er ekki satt.“

Þá segir hann að parið hafi ekki verið beðið afsökunar og að fangar telji þessa aðgerð og framkomu ótæka. „Hér er verið að fæla aðstandendur fanga í burtu með öllum tiltækum ráðum. Stelpur sem koma hingað í heimsókn eru teknar án ástæðu inn í herbergi og þær niðurlægðar. Þær látnar afklæða sig, beygja og glenna. Þær koma grátandi út og segjast aldrei ætla að láta sjá sig á Litla-Hrauni aftur.“

Hópnum látið eftir að refsa fáum

Þór segir að fangar geti ekkert annað gert en að lýsa reiði sinni og óánægju og biðla til stjórnvalda að skipta um yfirstjórn fangelsisins. Spurður að því hvort hætta sé á því að það sjóði upp úr segir Þór Óliver: „Ef einhverjir alvarlegir hlutir gerast þá er það engum öðrum um að kenna nema henni [Margréti] og þessum stjórnunarháttum.“

Hann segir þetta þó ekki það eina sem valdi reiði fanga. Þannig hafi íþróttasalnum verið lokað fyrirvaralaust og án skýringa, matarpeningar hafi ekki hækkað síðan 2008. „Það er bara búið að taka alla gulrót af góðu starfi vegna nokkurra einstaklinga sem haga sér eins og bjánar í fangelsinu. Vegna þeirra er ráðist á allan hópinn og honum því gert að refsa þessum fámenna hóp sem lætur illa. Á meðan bullar hún um að við séum strákarnir hennar.“

Þór, sem einnig er ritari í Afstöðu sem er trúnaðarráð fanga, spyr hvert þjóðin vilji stefna í fangelsismálum og hvort ekki eigi að stefna að betrun inni í fangelsum landsins. „Hér sér enginn út fyrir rimlana lengur. Ég er búinn að vera hérna síðan 1987 og þekki sögu þessa fangelsis út og inn. Því miður hefur fangelsismálum farið aftur um 25-30 ár,“ segir Þór Óliver og bætir því að merkja megi einnig aukningu í endurkomum íslenskra fanga. „Hvert vill þjóðin stefna? Vill hún bætta og betri menn út í samfélagið eða bitra og reiða?“

Ítrekað var reynt að ná í Margréti Frímannsdóttur, forstöðumann fangelsisins á Litla-Hrauni, en án árangurs.

Margrét Frímannsdóttir, forstöðumaður fangelsisins á Litla-Hrauni.
Margrét Frímannsdóttir, forstöðumaður fangelsisins á Litla-Hrauni. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Litla-Hraun.
Litla-Hraun. Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert