Félagsmenn starfsmanna ríkisstofnana óttast uppsagnir með haustinu. Hagræðing er víða í undirbúningi og má nefna að Vinnumálastofnun hefur fækkað um 25 í starfsliði sínu.
„Starfsmenn voru 160 í byrjun árs en eru nú 135. Þeir voru til samanburðar um hundrað fyrir efnahagshrunið. Við höfum lagað reksturinn að minna atvinnuleysi og búið okkur undir fækkun fólks í nokkurn tíma,“ segir Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar.
Sjö starfsmönnum Vinnumálastofnunar var sagt upp um mánaðamótin. Þá voru sjö tímabundnar ráðningar ekki framlengdar og ekki var ráðið í störf 11 starfsmanna sem létu af störfum í ár. Alls hefur því verið fækkað um 25 stöðugildi. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Gissur stofnunina ekki hafa fengið tilkynningar um hópuppsagnir hjá ríkinu um mánaðamótin.