Spá 30-40 metrum á sekúndu

Veðurfræðingur Vegagerðarinnar varar við vaxandi austanátt en gera má ráð fyrir vindhviðum allt að 30-40 m/s undir Eyjafjöllum frá því upp úr klukkan 15-16 í dag og hætt er við sandfoki, s.s. á Skeiðarársandi, frá því síðdegis. Þá má reikna með ofanhríð með köflum í allan dag á Hellisheiði og í Þrengslum.

Vetrarfærð er í flestum landshlutum með nokkurri hálku eða hálkublettum. Hálka er á  Mosfellsheiði en hálkublettir á Lyngdalsheiði og víðar í uppsveitum á Suðurlandi. Hálkublettir eru einnig við Vík í Mýrdal.

Á Vesturlandi er hálka á Fróðárheiði en annars hálkublettir nokkuð víða, sérstaklega á fjallvegum.

Hálka eða hálkublettir eru nú víða á Vestfjörðum, einkum á heiðum og hálsum en snjóþekja er á Þröskuldum.

Dynjandisheiði er þungfær en Hrafnseyrarheiði ófær en unnið að hreinsun á þessum fjallvegum. Ófært er norður í Árneshrepp.

Á Norðurlandi eru vegir auðir vestan Blönduóss en þar fyrir austan og í raun á öllu norðausturhorninu er hálka, hálkublettir eða snjóþekja.

Nokkur hálka, hálkublettir eða snjóþekja er á Austurlandi. Ófært er bæði um Breiðdalsheiði og Öxi. Vegurinn með suðausturströndinni er að mestu greiðfær en þó eru hálkublettir í Öræfum og snjóþekja vestan við Kirkjubæjarklaustur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert