Næstum jafn frægur og Ólafur Ragnar

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. Kristinn Ingvarsson

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, hefur það fyrir satt að því láti nærri að nafn hans komi jafn oft fyrir í leitarvél Google og nafn Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. „Nafn þessa sveitastráks hefur því býsna víða ratað,“ segir Steingrímur í endurminningum sínum.

Steingrímur gerir þetta að umtalsefni í endurminningabókinni Steingrímur J.Frá Hruni og Heim sem Björn Þór Sigbjörnsson skráir.

Orðrétt segir fyrrverandi formaður VG um þá athygli sem hann fékk sem einn forystumanna síðustu ríkisstjórnar:

„Mér er sagt að ef leitað er á vefnum, gúglað eins og sagt er, þá komi mitt nafn iðulega upp með fleiri hundruð þúsund eða milljónir talninga; fast á hæla okkar víðfræga forseta. Nafn þessa sveitastráks hefur því býsna víða ratað, auðvitað fyrst og fremst vegna þess hversu tengt mitt nafn varð alþjóðlega við glímu Íslands við afleiðingar Hrunsins og hversu mikið ég lenti á árabili í að svara fyrir mál Íslands í því sambandi.“

Forsjónin hafi ætlað honum hlutverk

Steingrímur segir líka frá orlagaríkum degi í lífi hans, 16. janúar 2006, þegar bíll hans valt nokkrar veltur í glerhálku og hríð nærri Bólstaðarhlíð í Austur-Húnavatnssýslu:

„Ég var stálheppinn. Þetta hefði getað farið miklu verr,“ segir Steingrímur sem telur ekki útilokað að fyrst forsjónin gaf honum lengra líf og heilsu þá sé kannski einhver meining á bak við það. „Sumir eru þeirrar skoðunar og eftir slysið var oft sagt við mig að það væri greinilegt að mínu hlutverki væri ekki lokið.“

Álagið gríðarlegt

Steingrímur fjallar einnig um þær miklu fórnir sem hann hafi þurft að færa vegna anna við stjórn landsmála.

Hann hafi þannig ekki getað tekið frí, að því er heitið getur, frá haustmánuðum 2008 og fram í ágúst 2012, þegar hann tók sér tveggja vikna frí.

„Þetta er fórn sem menn verða að vera tilbúnir að færa, alla vega þegar tímarnir eru erfiðir og krefjandi,“ segir Steingrímur.

Er í bókinni tekið dæmi af miklum önnum Steingríms, nánar tiltekið miðvikudaginn 8. apríl 2009 og mánudaginn 22. nóvember 2010.

Dagskráin fyrri daginn hafi hafist klukkan 9 að morgni og henni ekki lokið fyrr en 22.00 að kvöldi.

Hinn dagurinn hafi hafist 8.15 og honum lokið klukkan 22.00. Slíkt hafi fundaálagið verið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert