Stjórnvöld í Noregi hafa tilkynnt íslenskum og færeysku ráðamönnum að þau vilji lausn á makríldeilunni sem staðið hefur yfir undanfarin ár á milli Norðmanna og Evrópusambandsins annars vegar og Íslands og Færeyja hins vegar. Hins vegar séu þau ekki reiðubúin að fallast á lausn á deilunni sama hvað það kosti.
Frá þessu er greint á fréttavefnum Fishupdate.com í dag en beðið hefur verið eftir afstöðu nýrrar ríkisstjórnar Noregs, sem tók við völdum nýverið, til makríldeilunnar. Fram kemur í fréttinni að Auduns Maråk framkvæmdastjóri Samtaka norskra útvegsmanna, Steingrímur J. Sigfússon þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og Høgni Høydal, þingmaður færeyska Þjóðveldisflokksins hafi rætt um deiluna á vettvangi Norræna ráðsins.
Ennfremur segir í fréttinni að allar líkur séu á því að Evrópusambandið og Noregur beiti Íslendinga og Færeyinga refsiaðgerðum ef ekki nást samningar í deilunni. Haft er eftir Maråk, sem sæti á í samninganefnd Noregs vegna makríldeilunnar, að þó norsk stjórnvöld vilji forðast átök séu þau engu að síður reiðubúin að grípa til aðgerða gegn Íslandi og Færeyjum.