Undanfarin 73 ár, eða frá árinu 1930 hefur á Sólheimum í Grímsnesi dafnað samfélag þar sem alla tíð hefur verið lögð áhersla á að fatlaðir og ófatlaðir deili lífskjörum. Þar búa nú um eitt hundrað manns á ýmsum aldri, flestir starfa á staðnum en þar er fjölbreytt atvinnustarfsemi, auk blómlegs menningar- og listalífs.
Á Sólheimum er m.a. bakarí sem framleiðir brauð og kökur undir vörumerkinu Nærandi og einn þeirra sem þar starfa er Sigurður Gíslason sem segir allt bakkelsið bragðast jafn vel. „Það er alveg sama hvað er,“ segir hann.
Alls staðar, í öllum húsum Sólheima, er verið að vinna, skapa og njóta. Hugmyndir verða að veruleika og sumar þeirra lenda á hillum Völu, sem er verslun staðarins. Þar lendir t.d. afrakstur prjónaskapar Ármanns Eggertssonar, sem var önnum kafinn við að prjóna trefil þegar mbl.is bar að garði.
Þau Árni Alexandersson og Dísa Sigurðardóttir voru í kertasmiðjunni. Dísa var að hreinsa kertastubba, sem verða bræddir og verða að nýjum kertum en Árni segist að mestu vera hættur störfum. Hann situr þó síður en svo auðum höndum, heldur státar hann af nafnbótinni Lego-meistari Íslands.
„Þetta er mitt áhugamál,“ segir Árni þegar hann er spurður um Lego-áhugann. Hvernig verður maður Lego-meistari? „Ég er svo þolinmóður, ég geri pínulítið á hverjum degi.“