Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, segist frekar vilja skapa jákvæðan hvata fyrir íslenska námsmenn sem mennti sig erlendis til þess að snúa heim til starfa til að mynda með skattafrádrætti frekar en að beita refsiaðgerðum.
Þetta kemur fram á Facebook-síðu Katrínar en hún vísar þar til ummæla Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins og formanns fjárlaganefndar Alþingis, þess efnis að skoða þurfi hvort rukka eigi íslenska námsmenn, sem taka námslán til þess að fjármagna nám erlendis en skila sér ekki heim til starfa, um sérstakt álag þegar kemur að endurgreiðslu lánanna.
Katrín segir að hugmynd hennar í vinnu við frumvarp síðustu ríkisstjórnar um Lánasjóð íslenskra námsmanna hafi verið að nálgast þessi mál með jákvæðum hætti og setja á laggirnar starfshóp til þess að skoða þann möguleika að endurgreiðslur námslána þeirra sem sneru heim að námi loknu yrðu tengdar skattafrádrætti og þar með jákvæðum hvata til þess að starfa hér á landi.