Vill að þingmenn sýni kjark

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vill að þingmenn sýni kjark og forgangsraði í þágu grunnþjónustunnar. Hann óskar jafnframt eftir því að þingmenn komi með skýr skilaboð um hvernig þeir vilji forgangsraða með því að leggja fram tillögur um hagræðingu, en ekki bara tillögur um fjárútlát.

„Sé litið til umræðunnar á þinginu tel ég að þingheimur sé sammála um að skila eigi hallalausum fjárlögum. En um leið fer fram mikil umræða um að fjölmörgum verkefnum og málaflokkum vanti aukið fjármagn. Þá er nánast allur niðurskurður í fjárlagafrumvarpinu gagnrýndur. Þó svo að það séu verkefni sem voru ófjármögnuð,“ sagði Vilhjálmur á þingi í dag. 

Hann sagði að bæði Landspítalinn og lögreglan hafi þurft að gera skipulagsbreytingar til að bregðast við niðurskurði. „Landspítalinn gat gert breytingar þannig að sama þjónusta var veitt með 300 færri starfsmönnum og lögreglan með 100 færri starfsmönnum. Það hljóta aðrar opinberar stofnanir að geta gert betur,“ sagði hann.

„Við háttvirtir þingmenn verðum að þora að gera hlutina öðruvísi en þeir hafa verið gerðir. Við verðum að sýna að við þorum að forgangsraða,“ bætti hann við. „Það þýðir ekki að heimta allt og sýna svo enga ábyrgð í að fjármagna það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert