Furðar sig á Seðlabankanum

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins.

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að sú ákvörðun Seðlabanka Íslands að halda stýrivöxtum óbreyttum sé „algjörlega óskiljanleg“. Á Alþingi í dag sagðist hann jafnvel vilja endurskoða aðkomu hans að vaxtaákvörðunum í landinu.

„Fram kemur að helstu rök séu þau að búist sé við auknum hagvexti, eða upp á 2,3%. Í nýlegri skýrslu ASÍ um daginn kom fram að gert er ráð fyrir 1,7% hagvexti,“ sagði Þorsteinn. „Er það svo ægilegur héraðsbrestur að hér verði 2,3% hagvöxtur? Er það ástæða til að halda hér stýrivöxtum óbreyttum þegar fjárfesting er í sögulegu lágmarki eins og hún er búin að vera? Hvað ætlar Seðlabankinn að viðhalda lengi kyrrstöðu og deyfð?“

Þá sagði hann að Seðlabankinn hafi hótað aðilum vinnumarkaðarins því að stýrivextir verði hækkaðir ef kjarasamningar yrðu honum ekki þóknanlegir. „Ég veit bara ekki í hvaða veruleika Seðlabankinn lifir. Það er kannski kominn tími til að endurskoða aðkomu hans að vaxtaákvörðunum hér í landinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert