Ástralska konan sem nauðgað var í húsakynnum Vídeóhallarinnar í Lágmúla í apríl síðastliðnum sýndi ótrúlegt baráttuþrek. Auk þess að vera svipt frelsi sínu og beitt ítrekuðu ofbeldi var hún alls ókunn í Reykjavík, en með því að leggja á minnið kennileiti tókst að finna húsnæðið og árásarmanninn.
Eins og greint var frá á mbl.is fyrr í dag hlaut árásarmaðurinn, Wojciech Marcin Sadowski, fimm ára fangelsi fyrir brot sín. Einnig var honum gert að greiða konunni tvær milljónir í miskabætur og rúma eina milljón króna í annan kostnað.
Konan er 28 ára og starfar sem leiðsögumaður. Hún var á Íslandi í tveggja daga helgarferð og steig það sem reyndist óheillaspor; að þiggja far hjá Sadowski. Í stað þess að fara með hana á Kex Hostel þar sem hún gisti ók Sadowski sem leið lá að húsnæði Vídeóhallarinnar í Lágmúla. Húsnæðið stóð autt og hafði hann lykla að því.
„Hún vissi ekkert hvar hún var,“ segir Helga Vala Helgadóttir, réttargæslumaður konunnar. „Hún var orðin mjög hrædd um líf sitt og það sem hún gerði þá var að reyna að merkja staðinn. Hún hugsaði sem svo að ef hann myndi láta hana hverfa þá gæti einhver látið foreldra hennar vita.“
Helga Vala nefnir að hún hafi meðal annars brotið gat á glerhurð húsnæðisins. „Hún gerði það svo hægt væri að sjá að utan hvað gekk á. Þetta gekk allt út á það að vekja athygli og merkja staðinn ef hún myndi ekki verða til frásagnar sjálf. En gatið var of lítið og baráttan við árásarmanninn of mikil til að hún kæmist út um opið.“
Sökum þess að hún var algjörlega ókunn Reykjavík átti konan erfitt með að segja hvar árásin átti sér stað. Hún hafði þó lagt á minnið nokkur kennileiti sem varð til þess að hún gat gefið góðar vísbendingar. „Við fórum í vettvangsökuferð með lögreglunni og vorum að keyra hjá Lágmúla þegar við tókum eftir brotnu rúðunni. Þannig fannst húsnæðið.“
Haft var uppi á eiganda húsnæðisins sem benti á starfsmann sinn, Wojciech Marcin Sadowski. Hann hélt hins vegar fram sakleysi sínu allan tímann og sagði meðal annars að konan hefði dottið niður stiga. „Blóðferlafræðingar rannsökuðu hins vegar vettvanginn og gátu meira að segja sagt til um það hvernig hún lá þegar spörkin dundu á henni. Þetta var mjög ítarleg og góð rannsókn,“ segir Helga Vala.
Sadowski reyndi meðal annars að þvinga konuna til munnmaka en þá tók hún til sinna ráða. „Hún taldi mögulegt að hún kæmist hjá nauðgun ef hún myndi valda nógu miklu tjóni þannig að hún beit af öllum lífs og sálar kröftum, læsti hreinlega tönnunum um lim hans. Hann gjörsamlega trylltist við það og beitti hana enn meira ofbeldi. Hann reyndi þó ekki aftur að nauðga henni. Og vegna þessa voru einnig komin fram óyggjandi sönnunargögn í málinu.“
Læknir kom fyrir dóminn og gerði grein fyrir áverkum mannsins: „Hann kvað sár á kóngi á getnaðarlim ákærða hafa verið ferskt, opið og vessandi. Hefðu sárbrúnirnar ekki verið farnar að endurnýjast. Sárið kom heim og saman við að vera eftir bit. Vitnið kvaðst telja sársaukafullt að vera bitinn þarna, en þó ætla að viðkomandi myndi vera fær um að beita ofbeldi eftir það. Hann kvaðst ekki telja að um lamandi sársauka myndi vera að ræða,“ segir í dómnum.
Á endanum hætti þó Sadowski að berja konuna og bauðst til að keyra hana á gistiheimilið. Þrátt fyrir að geta ekki hugsað sér að verja andartaki til viðbótar með manninum taldi konan sig ekki eiga annarra kosta völ; hún vissi ekki hvar hún var í borginni eða hvernig hún gæti leitað sér hjálpar. „Hún taldi því að það væri betra að fara með honum upp í bíl og vonast til að hann færi nær miðborginni, hún gæti þá stokkið út á ferð.“
Þegar hann ók af stað sá konan turn Hallgrímskirkju og vissi þá að hún færðist nær miðborginni. Hún þurfti þó ekki að stökkva út á ferð þar sem Sadowski setti hana úr nærri Kex þaðan sem húnleitaði eftir aðstoð.
Helga Vala segir að þrátt fyrir skelfilega lífsreynslu sé konan ánægð með kerfið á Íslandi. Allt frá því hvernig tekið var á móti henni á neyðarmóttökunni, að hún fékk þegar í stað réttargæslumann og svo hvernig lögregla brást við og hvernig rannsókninni var háttað. Hún hafi farið víða um heim en geti ekki ímyndað sér að betur geti verið gert annars staðar.
Frétt mbl.is: Harkaleg og sérstaklega hættuleg árás